„Góður bónus fyrir okkur“

Leikmenn KA/Þórs fagna eftir eftir stórsigur á A-deildarliði Fjölnis í …
Leikmenn KA/Þórs fagna eftir eftir stórsigur á A-deildarliði Fjölnis í átta liða úrslitum Coca Cola-bikarsins. Skapti Hallgrímsson

B-deildarlið KA/Þórs mætir Haukum í undanúrslitum Coca Cola-bikarkeppni kvenna í handknattleik en dregið var til undanúrslita hjá báðum kynjum í gær.

Íslandsmeistarar Fram takast á við öflugt lið ÍBV í hinum leik undanúrslitanna. Leikirnir fara fram fimmtudaginn 8. mars, undanúrslit karla föstudaginn 9. mars og úrslitaleikir beggja laugardaginn 10. mars en allir leikirnir verða í Laugardalshöll.

„Undanúrslitin leggjast rosalega vel í mig. Þetta er mjög spennandi og skemmtilegt. Auk þess er þetta góður bónus fyrir okkur stelpurnar sem erum að spila í B-deildinni,“ sagði hin reynda Ásdís Sigurðardóttir á blaðamannafundinum í gær. KA/Þór er ósigrað í Grill 66-deildinni en vann auk þess stórsigur á úrvalsdeildarliði Fjölnis í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar.

Við erum mjög góðar

Ásdís segir liðið vera sterkt en hún þekkir landslagið í boltanum vel enda vann hún titla með Stjörnunni á árum áður. „Við erum mjög góðar. Liðið er gott, þjálfarateymið einnig og umgjörðin er flott. Þessir þættir fleyta liðum mjög langt og við trúðum því að við gætum komist langt í bikarnum. Ég hef ekkert séð til Haukaliðsins í vetur. Við höfum einbeitt okkur að okkar leik en nú fer þjálfarateymið væntanlega í þá vinnu að kortleggja Haukana,“ sagði Ásdís.

Spurð um hvort Akureyringar muni fjölmenna í Laugardalshöllina til að styðja við bakið á liðinu segir Ásdís að ekki vanti alla vega handboltaáhugann í bænum. „Fyrir norðan er stemning fyrir handbolta. Í gær (á þriðjudag) voru til dæmis ellefu hundruð manns á leik á milli KA og Akureyrar. Ég á von á því að Akureyringar muni fjölmenna í Höllina til að styðja við bakið á okkur,“ sagði Ásdís ennfremur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert