Dagur með átta mörk í sigri KA

Dagur Gautason úr KA og Styrmir Sigurðarson úr Þrótti í …
Dagur Gautason úr KA og Styrmir Sigurðarson úr Þrótti í leiknum á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA lagði Þrótt að velli 27:21 í Grill 66- deildinni, 1. deild karla í handknattleik á Akureyri en fjórir leikir fóru fram í kvöld.

KA hefur 22 stig í 2. sæti og er stigi á eftir grönnum sínum í Akureyri sem eiga leik til góða og mæta Haukum U á morgun.

Dagur Gautason skoraði átta mörk fyrir KA og var markahæstur norðanmanna en Andri Snær Stefánsson átti einnig góðan leik og skoraði sex mörk. Hjá Þrótti var Alexander Már Egan markahæstur með fjögur mörk.

HK tapaði dýrmætu stigi í baráttunni í efri hluta deildarinnar en liðið gerði 28:28 jafntefli við Val U og hefur 19 stig í 3. sæti.

Í öðrum leikjum vann Stjarnan U Míluna 23:18 á Selfossi og ÍBV U vann Hvíta riddarann 28:25 í Eyjum.

 

mbl.is