Stórleikur Ólafs dugði ekki til

Ólafur Guðmundsson.
Ólafur Guðmundsson. Ljósmynd/EMIL LANGVAD, Kristianstad

Rhein-Neckar Löwen hafði betur gegn Kristianstad á heimavelli í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag, 32:29. Guðjón Valur Sigurðsson var ekki með Löwen og Alexander Petersson komst ekki á blað. Ólafur Guðmundsson átti hins vegar stórleik fyrir Kristianstad og skoraði níu mörk. Arnar Freyr Arnarsson bætti við einu marki en Gunnar Steinn Jónsson komst ekki á blað.

Í sama riðli dugðu fjögur mörk Stefáns Rafn Sigurmannssonar ekki til fyrir Pick Szeged frá Ungverjalandi sem tapaði fyrir Evrópumeisturum Vardar Skopje frá Makedóníu, 34:30. Vardar er í toppsæti riðilsins með 20 stig eftir 12 leiki, Rhein-Neckar Löwen í 4. sæti með 14 stig, Pick Szeged sæti neðar með 11 stig en Kristianstad rekur lestina með sex stig. 

Aron Kristjánsson og Alfreð Gíslason leiddu saman hesta sína er Álaborg fékk heimsókn frá Kiel. Janus Daði Smárason var ekki með Álaborg vegna meiðsla, Darri Aronsson var ekki í leikmannahóp Álaborgar og Arnór Atlason náði ekki að skora. Að lokum vann Kiel, 27:20.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert