Mun gera sjálfstraustinu gott

Arnar Freyr Ársælsson
Arnar Freyr Ársælsson mbl.is/Golli

Arnar Freyr Ársælsson lék vel fyrir FH þegar liðið lagði Val að velli 31:30 í Olís-deildinni í kvöld og skoraði 5 mörk.

Sigurmark FH kom á lokasekúndu leiksins og það skoraði Óðinn Þór Ríkharðsson en Valur var yfir 30:27 og skoraði FH því síðustu fjögur mörk leiksins.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem okkar leikjum lýkur á flautumarki sem Óðinn skorar. Gott er að hafa svona leikmann í liðinu. En þetta hefur verið erfitt hjá okkur að undanförnu. Við töpuðum fyrir Fram í bikarnum og gerðum jafntefli gegn Fjölni í síðustu umferð. Smá erfiðleikar en höfum reynt að slípa okkur saman og síðasta æfing var góð. Við kláruðum dæmið á seiglunni en sigurinn hefði svo sem getað endað hvoru megin sem var,“ sagði Arnar þegar mbl.is spjallaði við hann en hann spilaði sinn fyrsta leik í langan tíma þar sem hann er að ná sér eftir meiðsli. 

Spurður um hvort skellurinn gegn Fram í bikarnum hafi ekki verið kjaftshögg fyrir FH-inga segir Arnar svo hafa verið. „Jú ég held að það sé rétt orðað því við ætluðum okkur að vinna þá titla sem voru í boði. Menn voru ógeðslega sárir eftir það tap. Ég hélt að við myndum ná okkur upp gegn Fjölni en það hefur gerst áður í vetur að við eigum fleiri en einn slæman leik í röð. Ég held því að þetta muni gera sjálfstraustinu gott. Að vinna leik með þessum hætti gefur okkur aðeins meira en að vinna leik með þriggja marka mun. Nú verður hver leikur í deildinni úrslitaleikur og þessi sigur skiptir miklu máli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert