Óðinn tryggði FH sigur á Val

Anton Rúnarsson í baráttu við Ágúst Birgisson í Kaplakrika í ...
Anton Rúnarsson í baráttu við Ágúst Birgisson í Kaplakrika í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnúss.

Óðinn Þór Ríkharðsson tryggði toppliði FH sigur 31:30 með marki á síðustu sekúndu leiksins þegar Íslandsmeistarar Vals komu í heimsókn í Kaplakrika í Olísdeildinni í handbolta. 

FH er í toppsæti deildarinnar með 23 stig og Valur í 5. sæti með 23 stig. Liðin léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð og hafði þá Valur betur eftir oddaleik.

Leikurinn var mjög fjörugur enda mikið skorað og varnir liðanna oft verið betri. Spennan var til staðar svo gott sem allan leikinn en munurinn á liðunum var aldrei meiri en þrjú mörk. Valur hafði yfir að loknum fyrri hálfleik 17:15.

Valsmenn voru raunar yfir megnið af leiknum. Þeir höfðu þriggja marka forskot 30:27 þegar um sjö mínútur voru eftir en skoruðu ekki mark eftir það. FH-ingar nýttu sér það og skoruðu síðustu fjögur mörk leiksins. 

Í síðustu sókninni fékk Magnús Óli brottvísun þegar 7 sekúndur voru eftir. Einar Baldvin varði í framhaldinu skot í marki Vals en boltinn fór út í hægra hornið. Þar náði Óðinn frákastinu, fór inn og skoraði sigurmarkið á elleftu stundu við mikinn fögnuð liðsfélaga sinna. FH-ingar stóðu uppi sem sigurvegarar eftir að hafa verið að elta Valsmenn megnið af leiknum. 

Einar Rafn Eiðsson skoraði 8 mörk fyrir FH og Ísak Rafnsson 6 en hjá Val var Magnús Óli Magnússon markahæstur með 6 mörk. 

FH 31:30 Valur opna loka
60. mín. Leik lokið FH sigraði 31:30. Sigurmark Óðins á síðustu sekúndunni.
mbl.is