Stjarnan aðeins sterkari en Fjölnir

Ari Magnús Þorgeirsson sækir að marki Fjölnis.
Ari Magnús Þorgeirsson sækir að marki Fjölnis. mbl.is/Kristinn Magnúss.

Stjarnan vann annan leik sinn í röð í Olísdeild karla í handbolta er Fjölnir kom í heimsókn í Garðabæinn. Eftir spennandi leik urðu lokatölur 31:28.

Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi og var staðan 8:7, Stjörnunni í vil þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Stjarnan náði 11:8 forystu skömmu síðar, en þá tók Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis, leikhlé sem hafði býsna góð áhrif á hans menn. Örfáum mínútum síðar voru Fjölnismenn komnir með 12:11-forystu og var staðan í hálfleik 16:15, Fjölni í vil. Sveinn Þorgeirsson og Egill Magnússon voru markahæstir í sínu liði í hálfleiknum með fimm mörk hvor.

Fjölnismenn voru skrefinu á undan í upphafi seinni hálfleiks, en munurinn varð aldrei meira en tvö mörk. Staðan var svo jöfn, 20:20, eftir tíu mínútur í seinni hálfleik. Stjarnan komst í 21:20 í kjölfarið og var það í fyrsta skipti í seinni hálfleik sem Stjarnan hafði forystu.

Jafnræðið hélt áfram eftir það og skiptust liðin á að vera með eins marks forystu þangað til Stjarnan komst í 26:23 tæpum tíu mínútum fyrir leikslok. Þrátt fyrir fína baráttu Fjölnismanna tókst þeim ekki að jafna og Stjarnan fagnaði sigri.

Stjarnan 31:28 Fjölnir opna loka
60. mín. Leik lokið Stjörnumenn voru aðeins sterkari í kvöld.
mbl.is