Takk Dagur Sigurðsson

Alfreð Gíslason hefur þjálfað Kiel frá árinu 2008.
Alfreð Gíslason hefur þjálfað Kiel frá árinu 2008. Ljósmynd/THW Kiel

Alfreð Gíslason var um helgina orðaður við starf landsliðsþjálfara Þýskalands í handknattleik karla í þýskum fjölmiðlum en óvissa ríkir um framhaldið hjá þjálfaranum Christian Prokop, sem tók við af Degi Sigurðssyni í fyrra og samdi til ársins 2022.

Þýska handknattleikssambandið mun funda í Hannover í dag um framtíðina hjá Prokop, sem er sagður með óuppsegjanlegan samning. Mikil óánægja er víða með störf hans og sérstaklega með frammistöðu Þjóðverja í úrslitakeppni Evrópumótsins í Króatíu í síðasta mánuði.

Alfreð stýrði Kiel gegn Aalborg í Meistaradeildinni um helgina og var þá spurður út í þessar fréttir, en þær áttu sér rætur í ummælum Dags í þættinum Seinni bylgjan á Stöð 2 Sport þar sem hann kvaðst hafa það á tilfinningunni að Alfreð yrði næsti landsliðsþjálfari Þýskalands. Alfreð er samningsbundinn Kiel til vorsins 2019 og hefur gefið út að þá muni hann hætta hjá félaginu en hann hefur stýrt liðinu frá 2008.

Kieler Nachrichten spurði Alfreð um sannleiksgildi fréttarinnar, og segir að hann hafi svarað spurningunni glottandi: „Takk Dagur Sigurðsson! Ég veit hvaðan þessi orðrómur kemur!"

Kieler Nachrichten segir enn fremur að enginn frá þýska handknattleikssambandinu hafi rætt við Alfreð um starfið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert