„Framfaraskref að fara til Elverum“

Sigvaldi Björn Guðjónsson.
Sigvaldi Björn Guðjónsson. Ljósmynd/Ole Nielsen

„Ég hlakka fyrst og fremst til vegna þess að ég hef góða tilfinningu fyrir þessari breytingu,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson, handknattleiksmaður, sem skrifað hefur undir tveggja ára samning við norska meistaraliðið Elverum. Sigvaldi Björn gengur til liðs við liðið í sumar þegar samningur hans við Århus Håndbold í Danmörku rennur út.

„Mig langaði til þess að takast á við eitthvað nýtt eftir þrjú ár hjá Århus. Takast á við nýja áskorun í öðru landi. Toppliðið í Noregi býður upp á ýmsa möguleika eins og til dæmis að leika í Meistaradeild Evrópu,“ sagði Sigvaldi Björn sem er örvhentur og leikur í stöðu hægri hornamanns.

Elverum, sem hefur borið ægishjálm yfir önnur lið í norsku úrvalsdeildinni síðustu árin, er sem stendur í efsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum á undan ÖIF Arendal, og á auk þess tvo leiki til góða á Arendal-liðið. Elverum lék í vetur í Meistaradeild Evrópu en er úr leik í keppninni um að tryggja sér keppnisrétt í 16-liða úrslitum. Hjá Elverum hittir Sigvaldi Björn fyrir Gróttumanninn Þráin Orra Jónsson sem gekk til liðs við norsku meistarana á síðasta ári.

„Ég lít á það sem framfaraskref á mínum ferli að ganga til liðs við Elverum. Þótt norska deildin sé ekki eins sterk og sú danska þá hefur það mikið að segja að komast í lið sem leikur í Meistaradeild Evrópu. Vonandi gengur það eftir. Meistaradeild Evrópu er stór gluggi fyrir handknattleiksmenn,“ sagði Sigvaldi Björn sem verður 24 ára gamall í sumar.

Sjá allt viðtalið við Sigvalda í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert