Hélt ég væri örugglega ekki hröðust

Anna Úrslúla Guðmundsdóttir sækir að marki Stjörnunnar í kvöld.
Anna Úrslúla Guðmundsdóttir sækir að marki Stjörnunnar í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er mjög sætt að vera einu sinni yfir í leiknum og það sé á lokaflautinu,“ sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, hetja Valskvenna, eftir 26:25-sigur á Stjörnunni í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld. Anna skoraði sigurmarkið 20 sekúndum fyrir leikslok og kom Val yfir í fyrsta skipti í leiknum.

Stjarnan náði mest fimm marka forystu í seinni hálfleik, en Valskonur neituðu að gefast upp.

„Þetta var karaktersigur því Stjarnan var með þetta allan leikinn. Svo söxuðum við aðeins á þær og þá náðum við að klára þetta, það yndislegt.“

„Vörnin var yfir höfuð alls ekki nógu góð, við fengum 15 mörk á okkur í fyrri hálfleik sem er ekki nógu gott. Ramune var að skora auðveld mörk bæði fyrir sig og liðið. Stjarnan er erfitt lið og þær voru mjög graðar í þetta í dag.“

Lina Rypdal hrökk í gang í marki Vals undir lokin og átti hún stóran þátt í sigrinum.

„Hún las þetta þegar við fórum að mæta Ramune og skotunum úti, þá var hún mætt fyrir aftan til að taka þessa bolta og stóð sig ótrúlega vel.“

Anna skoraði sigurmarkið úr hraðaupphlaupi, en hún leitaði að liðsfélögum sínum, áður en hún tók á rás í átt að marki Stjörnunnar.

„Ég hélt að ég væri örugglega ekki hröðust og bjóst við að það væru fjórar á undan mér og svo allt í einu áttaði ég mig á því að ég væri ein, það var svolítið þannig,“ sagði Anna skælbrosandi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert