Margir leikmenn sjálfir í áfengisbanni

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV, var virkileg ánægð með fimm marka sigur gegn Selfossi í Olís-deild kvenna í handknattleik í kvöld, sérstaklega fyrir þær sakir að liðið er núna tryggt inn í úrslitakeppni mótsins. 

„Auðvitað var það markmiðið, að fá tvö stig og tryggja okkur inn í úrslitakeppnina. Það er líka gaman að ná að leyfa öllum ungu leikmönnunum á bekknum að spila, það er flott. Það voru allt of margir tæknifeilar í þessum leik, en það var aldrei spenna og þegar hún er ekki til staðar þá verða leikirnir oft svona.“

Hefur Hrafnhildur verið að bíða eftir tækifæri til þess að gefa ungum leikmönnum aukinn spiltíma?

„Já, en við höfum samt verið dugleg að því, við vorum líka dugleg í fyrri umferðunum að gera þetta á móti liðunum í neðri hlutanum. Þær komu flottar inn og það var virkilega gaman að sjá það.“

Nú er ÍBV búið með Gróttu og Selfoss í síðustu tveimur leikjum og eiga Fjölni í næstu umferð. Eftir það taka við tveir hörkuleikir í deildinni í bland við úrslitahelgina í bikarnum, skemmtilegir leikir fram undan hjá ÍBV.

„Við fáum rosalega góðan undirbúning, leikurinn okkar gegn Fjölni verður á sunnudaginn og síðan höfum við ellefu daga undirbúning fyrir Final 4. Það verður mjög krefjandi og skemmtilegt, en þó pínu erfitt að stilla spennustigið fyrir leikinn mikla.“

Langtímamarkmið ÍBV hljóta að hafa náðst í dag, liðið tryggði sér nýlega sæti í Final 4 og núna tryggði liðið sér sæti í úrslitakeppninni, er ekki kominn tími á að setja ný markmið?

„Íþróttasálfræðingurinn okkar kemur núna fljótlega aftur til okkar, þá munum við setjast niður og setja okkur ný markmið. Við erum búin að ná þeim sem við settum okkur til að byrja með, nú þurfum við að setjast niður og setja ný.“

ÍBV hefur spilað ótrúlega vel eftir áramót, ef við tökum til hliðar einn lélegan hálfleik gegn Haukum. Hver er lykillinn að því að ÍBV kemur svona vel inn í mótið eftir áramót, er það leyniuppskrift?

„Fókuspunkturinn er rétt stilltur hjá leikmönnum, þær vilja þetta rosalega mikið og eru búnar að vera hrikalega duglegar í aga. Þetta eru leikmenn sem eru lítið að fara út að skemmta sér, mjög margar eru í áfengisbanni í sjálfu sér, vilja ekki drekka á meðan það er tímabil. Eina sem skiptir þær máli er að ná árangri í handbolta. Þetta er frábær hópur, þær eru búnar að bæta sig mjög mikið andlega, það er það mikilvægasta í þessu. Ég vissi alltaf að ég væri með rosalega góða handboltamenn og þær vissu það sjálfar, þær þurftu að bæta sig í hausnum og eru virkilega búnar að gera það. Þetta er það sem er að skila þeim áfram.“

mbl.is