„Nú er allt undir hjá okkur“

Perla Ruth Albertsdóttir er að snúa aftur eftir meiðsli.
Perla Ruth Albertsdóttir er að snúa aftur eftir meiðsli. mbl.is/Golli

Örn Þrastarson og lið hans Selfoss töpuðu með fimm marka mun gegn sterku liði ÍBV í 18. umferð Olís-deildar kvenna í handknattleik kvöld. Leikurinn var í raun aldrei spennandi þar sem ÍBV leiddi með átta marka mun í hálfleik 15:7. Leiknum lauk síðan 28:23 en Selfyssingar unnu því seinni hálfleik með fjórum mörkum sem Örn var mjög ánægður með.

„Okkur hefur gengið hrikalega illa með ÍBV í vetur og því er ég mjög sáttur við þessi úrslit. Mér fannst liðið spila hrikalega vel í 40 mínútur. Ég gekk mjög sáttur frá þessum leik,“ sagði Örn en liðið hefur mátt þola erfið töp í síðustu umferðum en komust þó einhvern veginn á réttu brautina í síðasta leik gegn Haukum en þar var liðið óheppið að fá ekki stig. Perla Ruth Albertsdóttir er komin inn í liðið aftur, er hún svona mikilvæg?

„Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur, hún er A-landsliðskona og myndi öll lið muna um það og hvað þá okkur. Það er gott að fá hana inn, vonandi fáum við fleiri inn bráðum en okkur vantar ennþá Hönnu og Kristrúnu. Við spáum ekkert í því, það er flott af flottum og efnilegum stelpum í liðinu sem eru að stíga hrikalega vel upp. Harpa og Hulda voru frábærar í dag og Elva og Ída stíga mikið upp. Við erum með sjö stelpur fæddar 2001 sem eru að spila og þær eru að spila gríðarlega vel.“

Hjá Selfossi eru það níu leikmenn sem skora mark í dag af þeim ellefu útileikmönnum sem komu með, það er nokkuð gott framlag.

„Það er frábært, hrikalega gott, við vinnum seinni hálfleikinn með fjórum mörkum, þó að það telji ekki neitt í punktasöfnun þá gefur það okkur heilmikið upp á framhaldið.“

Grótta og Fjölnir eru næst á dagskrá hjá Selfossi, nokkurn veginn jafningjaleikir, það hlýtur að vera skemmtilegt verkefni.

„Nú er allt undir hjá okkur, það er lykilleikur hjá okkur í Vallaskóla á mánudaginn, tvíhöfði í húsinu og vonandi fullt af fólki og brjáluð stemning. Ég hvet fólk til að koma að horfa á það, við ætlum að setja allt í þennan leik og að sjálfsögðu halda þessu sjötta sæti sem við erum í. Það hvíslaði því einhver að mér að sjötta sætið yrði besti árangur kvennaliðs á Selfossi frá upphafi. Við getum skrifað söguna, en það má leiðrétta mig ef þetta er rangt. Við mætum allavega klárar, það er klárt.

Eru einhverjar líkur á að Hrafnhildur Hanna og Kristrún verði með í þeim leikjum?

„Þær eru í góðum höndum hjá Jónda (sjúkraþjálfara) og Örnólfi lækni, þeir ákveða það bara. Ég vona að þær verði með en við verðum bara að sjá til,“ sagði Örn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert