Risasigrar Fram og Hauka

Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst hjá Fram í kvöld.
Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst hjá Fram í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fram og Haukar fylgja toppliði Vals enn sem skugginn í Olís-deild kvenna í handknattleik, en í kvöld réðist hvaða lið eru örugg í úrslitakeppnina.

Valur er enn með tveggja marka forskot á toppnum eftir sigur á Stjörnunni, en Haukar og Fram unnu bæði sína leiki og eru tveimur stigum á eftir Valskonum. Tap Stjörnunnar þýðir að liðið kemst ekki á meðal efstu fjögurra heldur er ÍBV öruggt með sæti þar eftir sigur á Selfossi.

Fram heimsótti Gróttu á Seltjarnarnes og vann öruggan 14 marka sigur, 35:21, eftir að hafa haft sjö marka forskot í hálfleik 16:9. Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst hjá Fram með 8 mörk en hjá Gróttu skoraði Lovísa Thompson 7 mörk.

Haukar fengu Fjölni í heimsókn og þar var aldrei spurning hvernig færi því Haukar unnu 21 marks sigur, 39:18. Þórhildur Braga Þórðardóttir var markahæst hjá Haukum með átta mörk en hjá Fjölni skoraði Andrea Jacobsen sex mörk.

Staðan í deildinni þegar þrjár umferðir eru eftir:

Valur 30, Haukar 28, Fram 28, ÍBV 26, Stjarnan 17, Selfoss 7, Grótta 4, Fjölnir 4.

Þórhildur Braga Þórðardóttir var markahæst hjá Haukum gegn Fjölni.
Þórhildur Braga Þórðardóttir var markahæst hjá Haukum gegn Fjölni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert