Vildi sleppa við Rússland

Sigurbergur Sveinsson, stórskytta Eyjamanna, í leik gegn FH.
Sigurbergur Sveinsson, stórskytta Eyjamanna, í leik gegn FH. mbl.is/Hari

„Ég var nú svona að vonast eftir því að sleppa við Rússland en það lítið hægt að gera í þessu og sætta okkur við þennan drátt,“ sagði stórskyttan Sigurbergur Sveinsson, leikmaður ÍBV, þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um dráttinn í 8-liða úrslitum Áskorendakeppni Evrópu þar sem Eyjamenn mæta rússneska liðinu Krasnodar.

„Ég veit ekkert um þetta lið en við munum fara í að skoða það næstu dagana. Í fljótu bragði gæti maður ímyndað sér að möguleiki okkar á að komast áfram sé 50/50 en það er ekki hægt að meta það fyrr en maður er búinn að sjá til liðsins. Það hefði verið notalegt að fara til Bergen og mæta Fyllingen þar sem við erum komnir úr erfiðu ferðalagi frá Ísrael. Það var strembið ferðalag. En þetta er bara spennandi og við ætlum að gera allt sem við getum til að komast áfram í keppninni,“ sagði Sigurbergur.

Sigurbergi gæti orðið að ósk sinni að fara til Bergen en slái ÍBV lið Krasnodar út mætir liði sigurvegaranum í leik Fyllingen frá Bergen eða rúmenska liðinu Potaissa Turda, sem sló Valsmenn út í undanúrslitunum í þessari keppni í fyrra í miklum skandal þar sem dómarar leiksins flautuðu Valsmenn út úr keppninni.

Eyjamenn eru í baráttunni á þrennum vígstöðvum en þeir eru í öðru sæti í Olís-deildinni, fimm stigum á eftir FH en eiga tvo leiki til góða, og eru komnir í undanúrslitin í Coca Cola-bikarnum. ÍBV tekur á móti Val á fimmtudaginn, fær FH í heimsókn á sunnudaginn og á þriðja heimaleikinn í röð á miðvikudaginn í næstu viku þegar Selfyssingar sækja Eyjamenn heim.

mbl.is