Bjartsýnn á að meiðslin séu ekki alvarleg

Geir Guðmundsson.
Geir Guðmundsson. mbl.is/Golli

Örvhenta skyttan frá Akureyri, Geir Guðmundsson, sneri sig á ökkla á æfingu með Cesson-Rennes í fyrradag og lék því ekkert með liðinu í gær þegar það mætti Aix á heimavelli í frönsku 1. deildinni í handknattleik.

Fyrst var útlitið ekki bjart og jafnvel talið að hann væri brotinn en að lokinni myndatöku var það útilokað. Hinsvegar er ekki loku fyrir það skotið að tognað hafi á liðböndum en Geir þarf að gangast undir aðra skoðun til þess að fá nánari upplýsingar um ástand ökklans. Hinsvegar þykir ljóst að hann verður frá keppni um skeið af þessum sökum.

„Ég vona að liðböndin séu bara tognuð en ekki rifin eða slitin. Mér líður mun betur í dag en í gær þannig að ég er bjartsýnn á að þetta sé ekki mjög alvarlegt,“ sagði Geir við Morgunblaðið í gær.

Geir hefur skorað 20 mörk fyrir Cesson-Rennes á keppnistímabilinu.

Cesson-Rennes er í harðri baráttu við Tremblay, Saran, Massy og Ivry við að forðast fall úr frönsku 1. deildinni og má illa við áföllum í leikmannahópi sínum um þessar mundir. Ragnar Óskarsson er aðstoðarþjálfari Cesson-Rennes og Guðmundur Hólmar Helgason hefur verið frá keppni vegna meiðsla nær allt tímabilið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert