Sigur að finna ekki verki

Guðmundur Hólmar í leik með íslenska landsliðinu.
Guðmundur Hólmar í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Foto Olimpik

„Ég hef verið í stífri endurhæfingu sem hefur gengið vel. Stefnan er sett á að geta leikið aftur handbolta um miðjan eða í lok mars,“ sagði Guðmundur Hólmar Helgason, handknattleiksmaður hjá franska liðinu Cesson-Rennes. Hann hefur meira og minna verið frá keppni síðasta árið, fyrst vegna meiðsla í ökkla og frá í haust vegna brjóskloss í baki.

„Það var tekin ákvörðun um að fara ekki í aðgerð heldur vinna á brjósklosinu með æfingum og það virðist hafa gengið vel. Ég fór síðast í sneiðmyndatöku í janúar þar sem í ljós kom að brjósklosið hafði dregist eitthvað saman. Síðan þá hefur þjálfarateymið hérna úti hægt og bítandi aukið álag og nú nýlega byrjaði ég að hlaupa og hoppa,“ sagði Guðmundur Hólmar sem hefur ekki átt sjö dagana sæla á handknattleikssviðinu undanfarið ár. Hann hafði rétt náð sér af ökklameiðslunum í haust þegar bakið gaf sig.

„Ég byrjaði að spila en fann til í baki. Fyrst kunni ég ekki við að kvarta yfir verkjum í bakinu eftir að hafa verið frá keppni í sjö mánuði vegna ökklameiðsla. Ég reyndi að harka af mér en svo kom að því að það gekk ekki lengur,“ sagði Guðmundur Hólmar sem náði þremur leikjum með Cesson Rennes á haustmánuðum áður en við tók meðferð vegna brjóskloss.

Hafa sýnt mikinn skilning

„Kannski gerði þessi þrjóska illt verra, hver veit,“ sagði Guðmundur Hólmar sem ber lof á þjálfarateymi Cesson-Rennes en það hefur sýnt honum mikinn skilning á undanförnu ári. „Við höfum tekið viku fyrir viku í endurhæfingunni. Þeir hafa ekkert pressað á mig að byrja að spila aftur heldur sýnt mér þolinmæði auk þess sem menn hafa allir verið á einu máli um að forðast beri aðgerð eins lengi og mögulegt er.“

Guðmundur Hólmar segir endurhæfingaferlið hafa verið tímafrekt. Álagið hafi verið aukið jafnt og þétt og rækilega farið yfir það viku fyrir viku hvernig líkaminn svarar auknu álagi. „Við höfum jafnt og þétt nánast verið að prófa okkur áfram dag frá degi hvernig líkaminn bregst við. Til þessa hefur gengið vel en vel að merkja þá hef ég ekki verið í neinum átökum til þessa heldur meira og minna æft einn. Hingað til hefur gengið vel, sjö, níu, þrettán, vonandi verður svo áfram,“ sagði Guðmundur Hólmar og viðurkennir að það hafi verið mikill sigur að mega byrja að hlaupa á nýjan leik og finna ekki fyrir verkjum.

Sjá allt viðtalið við Guðmund Hólmar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert