Dómararnir áttu sinn versta dag

Guðmundur Helgi Pálsson fær hér að líta gula spjaldið hjá …
Guðmundur Helgi Pálsson fær hér að líta gula spjaldið hjá Bjarna Viggóssyni, öðrum dómara leiksins. Guðmundur vandaði þeim ekki kveðjurnar í leikslok. mbl.is/Stella Andrea Guðmundsdóttir

„Einn lykilmaður hjá mér er veikur og öðrum lykilmanni er svo kippt út af. Í þriðja lagi voru dómararnir bara sorglegir í dag, því miður.“ Þetta sagði grautfúll Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, eftir 28:24 tap gegn Val í Framhúsinu í 20. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld.

Afar umdeilt atvik átti sér stað í fyrri hálfleik þegar Arnar Birkir Hálfdánsson fékk beint rautt spjald en dómararnir virtust ekki alveg vissir í sinni sök og byrjuðu til að mynda á að gefa vitlausum leikmanni rauða spjaldið. Guðmundur segir það ljóst að þeir hafi einfaldlega ekki séð þetta nægilega vel og vandaði dómurunum ekki kveðjurnar.

“Þeir áttu einn versta dag sem ég hef séð í langan tíma. Við vorum tveimur færri nánast frá fjórðu mínútu og þá er erfitt að vinna leik.“

„Þeir segja að hann hafi farið aftan í hann með hendurnar en ég neita því bara algjörlega. Þá eru þeir að sjá eitthvað allt annað en ég, hann er við hliðin á honum og fer aðeins í hann; víti og tvær mínútur, ekkert mál. En rautt spjald? ég á ekki til orð.“

„Ég mun koma til með að skoða þessi atvik og senda klippur á dómaranefndina, vonandi skoða þeir þessi atvik og læra af þessu, alveg eins og við gerum þegar við eigum slæman dag. Dómgæslan var kostuleg í dag, meira og minna allan leikinn.“

Þrátt fyrir að vera án Þorsteins Gauta Hjálmarssonar, sem var veikur og svo Arnar Birkis eftir rauða spjaldið héldu Framarar áfram að berjast og var Guðmundur ánægður með framlag sinna manna.

„Ég er stoltur af drengjunum og hvernig þeir héldu áfram. Þetta var alveg leikur og ef nokkur smáatriði hefðu dottið með okkur er aldrei að vita, en mínir menn sýndu frábæran karakter og við höldum bara áfram. Okkur var ekki ætlað að vinna hérna í dag.“

Framarar eru þremur stigum frá sæti í úrslitakeppninni en þó komnir í undanúrslit Coca Cola-bikarsins. Guðmundur segir markmiðið enn vera að ná einu af efstu átta sætunum.

„Við erum á góðum stað núna og förum í hvern einasta leik með það hugarfar að ætla okkur sigur, hvort sem það er deild eða bikar. Við ætlum okkur í úrslitakeppnina og þurfum að taka restina af stigunum til að ná því, það verður bara gaman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert