Þrettán marka sigur Hauka

Hákon Daði Styrmisson og samherjar í Haukum leika við Víkinga.
Hákon Daði Styrmisson og samherjar í Haukum leika við Víkinga. mbl.is/Eggert

Haukar unnu stórsigur á Víkingi, 32:19, í Olísdeild karla í handknattleik í Schenker-höllinni á Ásvöllum í dag. Eftir jafnan fyrri hálfleik skildi leiðir strax í byrjun síðari hálfleiks þegar Haukar bættu varnarleik sinn og skildu Víkinga eftir á fyrsti tíu mínútum hálfleiksins. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 13:12.

Víkingar jöfnuðu metin, 13:13, en næstu átta mörk síðari hálfleiks skoruðu Haukar og gerðu nánast út um leikinn.

Víkingar voru ekki mættir til leiks á Ásvöllum til þess að leggja árar í bát. Þeir lögðu sig alla fram í fyrri hálfleik. Eftir jafnar fyrstu tíu mínútur tóku Haukar kipp og náðu mest fimm marka forskoti, 12:7. Forskotið myndaðist ekki síst vegna þess að Haukar skoruðu fjögur mörk yfir endilangan völlinn eftir að Víkingar höfðu kallað markvörð sinn af leikvelli og lagt aukinn þunga í sóknarleikinn með sjö mönnum. Slen og kæruleysi var yfir Haukaliðinu. Engu var líkara en menn teldu að þeir þyrftu ekkert að hafa fyrir sigrinum. Aðeins var eins marks munur í hálfleik, 13:12.

Ævintýrið var að enda hjá Víkingum í byrjun síðari hálfleiks. Kraftur hljóp í leikmenn Hauka sem börðu saman vörn sína auk þess sem Björgvin Páll varði af miklum móð. Eftir tíu mínútur var staðan orðin, 21:13, Haukum í vil. Munurinn var orðinn tíu mörk um miðjan síðari hálfleik. Víkingar náðu að minnka muninn í sjö mörk, 26:19, en þá gáfu Haukar í á nýjan leik. Andri Scheving varði vel í markinu. Þegar upp var staðið var munurinn 13 mörk.

Haukar náðu að dreifa álaginu vel á milli leikmanna sinn enda er nóg um að vera fram undan þar sem þeir horfa helst til bikarúrslitanna um aðra helgi. Tjörvi Þorgeirsson fékk frí frá leiknum vegna  bólgu í hné. Þegar Haukar tóku sig til í þessum leik léku þeir vel með frábærri vörn og framúrskarandi markvörslu.

Víkingar mega eiga það að þeir reyndu hvað þeir gátu og verða ekki sakaðir um að hafa gefist upp þótt staðan væri slæm þegar kom fram í síðari hálfleik og átti enn eftir að versna áður en yfir lauk. Hins vegar er ljóst að Víkingsliðið á ekki marga möguleika eftir til þess að bjarga tilverurétti sínum í deildinni.

Haukar 32:19 Víkingur opna loka
60. mín. Leik lokið - öruggur sigur Hauka eftir að þeir tóku sig til í síðari hálfleik.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert