Má aldrei slaka á gegn Fram

Magnús Óli Magnússon átti stórleik fyrir Val í kvöld.
Magnús Óli Magnússon átti stórleik fyrir Val í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er mjög ánægður, við bættum ofan á ÍBV-leikinn þar sem við vorum góðir. Við gerðum svo enn betur hér og það var allt inni hjá mér í dag,“ sagði Magnús Óli Magnússon, leikmaður Vals, eftir 28:24 sigur á Fram í 20. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Framhúsinu í kvöld. Magnús átti frábæran leik og skoraði 13 mörk og höfðu Valsarar ágæta forystu nær allan leikinn.

„Þetta var hnífjafnt í byrjun og svo fær Arnar Birkir rautt spjald. Ég veit ekki alveg hvað það var, ég þarf að skoða það aftur en þeir voru óheppnir á köflum. Þetta hefði getað verið hnífjafn leikur en við börðumst bara allan tímann.“

„Framarar hætta aldrei og við töluðum um það fyrir leik að það má aldrei slaka á gegn þeim. Við vorum fimm yfir í fyrri hálfleik og slökum aðeins á og þá minnkuðu þeir niður í eitt mark. Við kláruðum þetta svo í seinni.“

Með sigrinum skelltu Valsarar sér í annað sætið, alla vega tímabundið, en Magnús segir markmiðið nú vera að vinna þá leiki sem eftir eru.

„Nú þurfum við bara að klára þá leiki sem eru eftir og ná öðru sætinu. Við höfum leikið  vel í undanförnum leikjum, hvort við séum á besta stað verður svo að koma í ljós í úrslitakeppninni. Vörnin hefur verið góð og við fáum mikið af hraðaupphlaupum, þetta er aðeins að smella hjá okkur.“

Framarar voru gífurlega ósáttir með dómara leiksins og fékk Matthías Daðason eitt af tveimur rauðum spjöldum leiksins, meðal annars fyrir að brjóta nokkrum sinnum á Magnúsi. Honum fannst Magnús gera mikið úr þeim viðskiptum en Valsarinn segist þó ekki hafa getað staðið þetta af sér.

„Þetta gerist svo hratt, maður er í loftinu og svo kemur snerting og maður missir jafnvægið. Það er tosað aftan í mig og ég datt, ég veit ekki hvað ég á að segja. Ég hefði ekki getað staðið þetta af mér,“ sagði Magnús að endingu.

mbl.is