Stýrði hann landsliðinu ölvaður á EM?

Jovica Cvetkovic stappar stálinu í leikmenn serbneska landsliðsins í einum …
Jovica Cvetkovic stappar stálinu í leikmenn serbneska landsliðsins í einum leikjanna á EM í Króatíu í janúar. Óvíst er að hann stýri fleiri leikjum serbneska landsliðsins á næstunni. AFP

Hver höndin virðist vera upp á móti annarri innan serbneska landsliðsins í handknattleik karla. Það ekki í fyrsta sinn sem kastast í kekki á þeim bænum. Leikmenn landsliðsins sem tóku þátt í Evrópumeistaramótinu í Króatíu í janúar saka landsliðsþjálfarann um að hafa verið drukkinn að stjórna liðinu á EM.

Þjálfarinn, Jovica Cvetkovic, hafði áður gefið upp boltann með því að segja að leikmenn hafi ekki haft trú á sigri gegn Íslendingum og nokkrir úr hópnum hafi stundað næturklúbba Zagreb-borgar meðan á þátttöku serbneska landsliðsins stóð.  

Leikmenn landsliðsins hafa sent frá sér bréf til Handknattleikssambands Serbíu þar sem þeir lýsa þjálfarann óhæfan. Hann sé óskipulagður drykkjurútur sem auk þess reyki á æfingum og inni í klefa leikmanna, m.a. í hálfleik og eftir landsleiki. Leikmenn fullyrða að Cvetkovic viti ekki með hvaða félagsliðum sumir leikmenn landsliðsins leiki, hann hafi heldur ekki þekkt til meirihluta leikmanna í liðum þeim sem Serbar mættu á EM.

Hermt er að Cvetkovic hafi eytt jafnvirði 150 þúsund króna í áfengiskaup þá viku sem landsliðið dvaldi í Zagreb í milliriðlakeppninni. Fyrir vikið hafi hann verið ölvaður allar nætur og fram á daginn eftir. Svo rammt kvað að drykkju Cvetkovic að hann var ölvaður á hliðarlínunni í lokaleik Serba á EM, gegn Hvít-Rússum. Af þeim sökum hafi hann verið ófær um að stjórna liðinu í leiknum. Leikmenn hafi aldrei vitað þegar þeir tóku á sig náðir að kveldi hvenær gert væri ráð fyrir þeim í morgunmat né hvenær ráðgert væri að hafa liðsfundi eða æfingar. Skipulag þjálfarans hafi allt verið í skötulíki.

Cvetkovic er m.a.  sagður hafa ekið til Skopje fyrir EM til þess að funda með Alem Tosic en gripið í tómt þegar kom á daginn að Tosic leikur með Gorenje Velenje í Slóveníu. Þá hafi hann spurt Zarko Sesum hvort hann væri enn í Rhein-Neckar Löwen, en Sesum hefur verið í herbúðum Göppingen í fjögur ár.  Þá er Cvetkovic sagður hafa spurt eina helstu kempu landsliðsins, Bogdan Radivojevic, í miðri keppni með hvaða félagsliði hann léki um þessar mundir.

Einnig hafi þjálfarinn aldrei ferðast með liðinu til og frá æfingum og leikjum heldur í einkabíl með bílstjóra.

Með bréfi sínu eru leikmenn, allir sem einn, að svara fyrir ásakanir sem Cvetkovic setti fram á dögunum og leikmenn segja vera tilhæfulausar með öllu. Cvetkovic hefur opinberlega sagt að sjö leikmenn landsliðsins hafi verið svo vonlausir fyrir viðureignina við Íslendinga í lokaumferð riðlakeppninnar að þeir hafi verið búnir að bóka ferð til síns heima frá Split í Króatíu þar sem leikurinn fór fram. Einnig heldur Cvetkovic fram að hið minnsta tveir leikmenn landsliðsins hafi brotið útivistarreglur hópsins og stundað næturklúbba í Zagreb meðan landsliðið dvaldi í borginni í milliriðlakeppninni.

Cvetkovic tók við þjálfun serbneska karlalandsliðsins árið 2016. Hann þekkti vel til starfans enda var hann einnig þjálfari landsliðsins frá 2006 til 2009 auk þess að vera þrautreyndur félagsliðaþjálfari. Cvetkovic var afburðahandknattleiksmaður á níunda áratug síðustu aldar og átti stóran þátt í sigri júgóslavneska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í Sviss 1986. Á löngum ferli lék Cvetkovic m.a. með Rauðu stjörnunni, Metaloplastika, GWD Minden, Bidasoa og Cantabria.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert