„Það var að duga eða drepast“

Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var virkilega mikilvægt, það var bara að duga eða drepast fyrir okkur hér í kvöld,“ sagði Karen Knútsdóttir, leikmaður Fram, eftir 23:19 sigur á Val í Framhúsinu í 19. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld.

Framarar hirtu toppsætið af Reykjavíkurfjendum sínum með þessum sigri en bæði lið fóru illa af stað í kvöld og gerðu ótal mörg mistök. Karen segir að hátt spennustig beggja liða hafi haft áhrif á byrjun leiksins. 

„Það var hátt spennustig hjá báðum liðum held ég, enda mikið undir. Það var hrikalega mikið um tæknifeila og markverðirnir tóku sín skot þannig að ekki var mikið skorað í dag.“

Framarar bættu leik sinn til muna í síðari hálfleik og sagði Karen að sitt lið hafi einfaldlega þurft að spila skynsamari handbolta.

„Við þurftum að vera skynsamari í okkar aðgerðum. Valskonur spila mjög skynsaman handbolta, byggja upp á löngum sóknum en það var full mikið óðagot á okkar, við vildum alltaf bruna upp og skora í fyrsta. Við þurftum að spila meira saman og finna réttu færin.“

„Það er oft erfitt að spila svona sjö á móti sex. Manni finnst markið alltaf tómt og þá reynir maður að negla í staðinn fyrir að spila meira og betur saman, ég veit ekki hvað við klikkuðum á mörgum svona færum í kvöld og það er dýrt. Við verðum að taka þetta fyrir á æfingum.“

Framarar fóru nokkuð illa af stað í vetur en eru nú á toppi deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir.

„Tímabilið byrjaði ekkert sértaklega hjá okkur. Svo kom Steinunn inn í vörnina sem skipti gríðarlega miklu máli, ég kom inn og Hulda er byrjuð að æfa með okkur. Breiddin í hópnum er að aukast og gæðin á æfingum eru að aukast, það hjálpar okkur líka.“

Að lokum sagði Karen að það væri sætt að sigra nágrannana í Val til að komast á toppinn.

„Auðvitað, þegar ég var að spila síðast á Íslandi þá voru þetta alltaf toppliðin og oft sérstakir og skemmtilegir leikir þeirra á milli. Það var sætt að vinna í dag og við þurftum að gera það til að geta tekið titilinn.“

Karen Knútsdóttir var að vonum ánægð eftir að Fram skellti …
Karen Knútsdóttir var að vonum ánægð eftir að Fram skellti sér á toppinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert