Framarar í úrslit eftir vítakeppni

Matthías Daðason skorar fyrir Fram í Laugardalshöllinni í kvöld.
Matthías Daðason skorar fyrir Fram í Laugardalshöllinni í kvöld. mbl.is/Hari

Fram leikur við ÍBV í úrslitaleik Coca Cola-bikars karla í handbolta eftir magnaðan 32:31-sigur á Selfossi í undanúrslitum í kvöld. Eftir æsispennandi leik réðust úrslitin í vítakeppni. 

Leikurinn var jafn og spennandi á fyrstu mínútunum og skiptust liðin á að ná forystunni. Þegar fyrri hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður var staðan 8:8. Leikurinn hélt áfram að vera jafn næstu mínútur og var staðan 10:10 þegar skammt var eftir af hálfleiknum. Þá skoruðu Selfyssingar þrjú mörk í röð og komust í 13:10. Þegar flautað var til leikhlés var staðan 15:12.

Framarar réðu illa við hraðar sóknir Selfyssinga, sem nýttu sér seinagang í vörn Framara, hvað eftir annað. Viktor Gísli Hallgrímsson og Sölvi Ólafsson vörðu vel í mörkunum, þrátt fyrir misgóð tilþrif í vörninni.

Seinni hálfleikurinn fór hægt af stað og komu aðeins þrjú mörk á fyrstu tíu mínútum hans og var Selfoss enn með forystuna, 16:14. Framarar minnkuðu svo muninn í 16:15 og skömmu síðar var staðan jöfn, 17:17.

Tíu mínútum fyrir leikslok komst Fram í 20:19 og var það í fyrsta skipti sem Framarar voru yfir í fyrsta skipti síðan í stöðunni 9:8. Stærsta ástæða þess var stórbrotin frammistaða Viktors Gísla í markinu, en Selfoss skoraði ekki mark í tíu mínútur undir lokin. Framarar nýttu sér það og komust í 23:21, þremur mínútum fyrir leikslok.

Selfyssingar neituðu hins vegar að gefast upp og fóru að verjast mjög framarlega á síðustu mínútunum. Framarar réðu illa við það og tókst Selfossi að jafna í 23:23 með marki Teits Arnar Einarssonar, tæpri mínútu fyrir leikslok.

Bæði lið fengu tækifæri til að skora markið, en það tókst ekki. Andri Þór Helgason náði að koma boltanum í markið um leið og tíminn rann út, en dómararnir töldu að hann hafi verið sekúndubroti of seinn og því varð að framlengja.

Framlengingin var gríðarlega jöfn allan tímann og skiptust þau á að komast yfir. Í stöðunni 27:27 fengu Selfyssingar tækifæri til að tryggja sér sigurinn en Viktor Gísli varði tvö skot á síðustu tíu sekúndunum og tryggði Fram vítakeppni. Í henni skoruðu Framarar úr öllum fimm vítum sínum en Teitur Örn skaut í stöng og klikkaði á eina víti Selfyssinga. 

Selfoss 31:32 Fram opna loka
71. mín. Haukur Þrastarson (Selfoss) skorar úr víti Sem hann gerir. Andri Þór Helgason getur unnið þetta.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert