„Ég er virkilega stoltur“

Guðmundur á hliðarlínunni í dag.
Guðmundur á hliðarlínunni í dag. mbl.is/Hari

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, sagði ÍBV hafa spilað betri vörn þegar liðin mættust í úrslitum Coca Cola-bikars karla í Laugardalshöll og ÍBV sigraði 35:27. 

„Vörnin hjá okkur sprakk eiginlega og markvarslan með. Vörnin var frábær hjá þeim og Aron einnig í markinu. Ég óska þeim til hamingju. Við vorum bara númeri of litlir fyrir þá í dag,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is en Fram kom mörgum á óvart í keppninni og sló út Aftureldingu, FH og Selfoss á leið sinni í úrslitin. 

„Ég er virkilega stoltur af mínum mönnum. Þessir strákar eiga eftir að ná langt. Við setjum þetta bara í innra minnið og munum eftir þessu næst.“

Fram lenti í maraþonleik gegn Selfossi í undanúrslitum í gærkvöldi sem hlýtur að hafa tekið sinn toll. Guðmundur vildi þó ekki skýla sér á bak við það þótt hann hafi séð þreytumerki á mönnum þegar á leið. „Auðvitað tekur það á en það er engin afsökun. Menn gleyma slíku þegar komið er inn í leikinn en í síðari hálfleik fer líkaminn að gefa eftir. Við höfum ekki alveg sömu breidd og mörg önnur lið. En við töpuðum fyrir frábæru liði í dag og enginn tekur það af okkur að við spiluðum til úrslita sem ég er stoltur af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert