Bjóst ekki við að vinna svona stórt

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari ÍBV í handknattleik, átti ekki von á jafn stórum sigri og raunin varð þegar Stjarnan kom í heimsókn í Olís-deild kvenna í kvöld. ÍBV vann 14 marka sigur, 37:23.

„Við ætluðum okkur að vinna en ég bjóst ekki við að vinna svona stórt. Þær voru laskaðar svo þetta leit vel út fyrir okkur frá byrjun, en við vorum fljótar að ná góðri forystu og litum aldrei til baka,“ sagði Hrafnhildur við mbl.is eftir leikinn.

Hún leyfði mörgum ungum leikmönnum að spreyta sig í leiknum í kvöld sem var nauðsynlegt eftir undanúrslitaleikinn gegn Fram í bikarnum í síðustu viku þar sem ÍBV tapaði.

„Eftir bikarleikinn þá sást að nokkrar voru sprungnar í lokin, enda hraður leikur,“ sagði Hrafnhildur.

Stjarnan á ekki möguleika á sæti í úrslitakeppninni á meðan ÍBV freistar þess að ná einu af tveimur efstu sætunum og þar með heimaleikjaréttinum í úrslitakeppninni. Það var greinilegt hvort liðið hafði að einhverju að keppa í kvöld.

„Þær höfðu að nákvæmlega engu að keppa, á meðan við vitum ekki ennþá hvort við höfum að einhverju að keppa eða ekki. Það fer eftir hinum leikjunum. En vonandi voru stigin einhvers virði og það kemur í ljós í kvöld,“ sagði Hrafnhildur sem ítrekaði að hlutirnir væru ekki í höndum Eyjakvenna þegar ein umferð er eftir.

„Tveir sigrar skilið okkur eftir í þriðja sætinu, sem er súr tilhugsun. En við verðum að treysta á önnur úrslit til þess að ná heimaleikjaréttinum og við stefnum á að ná því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert