Sigur okkar er sanngjarn

Kristín Guðmundsdóttir, fyrirliði Vals, lytir bikarnum ásamt liðsfélögum sínum í …
Kristín Guðmundsdóttir, fyrirliði Vals, lytir bikarnum ásamt liðsfélögum sínum í dag. mbl.is/Eggert

„Mér fannst við leika heilt yfir mjög vel og legg ég áherslu á heilt yfir,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handknattleik, eftir að Valur vann Hauka, 28:22, í lokaumferð  Olísdeildarinnar og tryggði sér um leið  deildarmeistaratitilinn.

„Markvarslan var jöfn, varnarleikurinn frábær með Gerði Arinbjarnar og Önnu Úrsúlu í miðjunni. Þær voru öflugar.  Sóknarleikurinn var agaður og við gáfum Haukum fá tækifæri til þess að ná hraðaupphlaupum.  Agaður sóknarleikur og góður varnarleikur skóp sigurinn,“ sagði Ágúst Þór ennfremur en hann tók við þjálfun Vals á síðasta sumri eftir hálf endasleppta leiktíð Valskvenna í fyrra.

Valsliðinu var ekki spáð góðu gengi fyrir leiktíðina, fjórða til fimmta sæti. Liðið hefur hinsvegar sýnt jafnan og góðan leik allt keppnistímabilið og m.a. verið í efsta  sæti frá fyrstu umferð og til loka.  „Við höfum verið í efsta sæti deildarinnar nánast allt mótið. Leikur okkar hefur verið sá jafnbesti af þeim sem lið deildarinnar hafa sýnt fram til þessa.  Þess vegna tel ég að ef sanngirni er til í íþróttum þá lýsir hún sér í deildarmeistaratitli okkar í dag. Stöðugleikinn hefur verið okkar aðalsmerki. Leikmenn mínir hafa verið agaðir og einbeittir og hafa svo sannarlega unnið fyrir þessum bikar sem þær lyftu hér áðan,“ sagði glaðbeittur Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari deildarmeistara Vals í handknattleik  kvenna.

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals.
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert