Úrslitaleikir í handboltanum í dag

Valur og Haukar eru í tveimur efstu sætunum fyrir lokaumferðina …
Valur og Haukar eru í tveimur efstu sætunum fyrir lokaumferðina í dag og mætast í Víkinni. mbl.is/Árni Sæberg

Úrslitin í Olísdeild kvenna og toppbaráttu 1. deildar kvenna ráðast í dag en þá kemur í ljós hvaða lið verður deildarmeistari í Olísdeildinni, hverjir falla og hvaða lið vinnur sér sæti í deildinni.

Valur mætir Haukum í Víkinni og Fram mætir ÍBV í Safamýri í lokaumferð Olísdeildar kvenna sem er öll leikin kl. 13.30. Valur er með 32 stig, Haukar 30, ÍBV 30 og Fram 30 stig. Valur vinnur deildina með jafntefli eða sigri en annars geta Haukar eða ÍBV náð efsta sætinu. Þessi fjögur lið munu síðan spila um Íslandsmeistaratitilinn og lokaröðin í deildinni í dag ræður því hverjir mætast í undanúrslitum.

Rétt er að ítreka að leikur Vals og Hauka er í Víkinni en hann var fluttur þangað þar sem Valshöllin er upptekin í dag.

Á Akureyri er mikið í húfi þegar tvö efstu liðin í 1. deild kvenna, KA/Þór og HK, mætast í hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni í dag. Bæði eru taplaus í vetur en KA/Þór er með tveggja stiga forystu og nægir jafntefli til að fara upp í úrvalsdeildina. HK færi hins vegar upp með sigri. Liðið í öðru sæti fer í umspil ásamt næstneðsta liði Olísdeildar, ÍR og FH.

Þá mætast tvö neðstu lið Olísdeildar kvenna, Grótta og Fjölnir, í hreinum úrslitaleik í dag um hvort þeirra kemst í umspil og hvort fellur beint úr deildinni. Fjölni nægir jafntefli en Grafarvogsliðið er með 6 stig og Grótta 4.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert