Búnir að kasta titlinum frá okkur

Einar Rafn Eiðsson.
Einar Rafn Eiðsson. mbl.is/Árni Sæberg

Einar Rafn Eiðsson, besti útileikmaður FH-inga í tapleiknum gegn Selfyssingum í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld, var að vonum svekktur með úrslitin þegar hann ræddi við mbl.is eftir leikinn í Kaplakrika.

„Við erum nánast búnir að kasta deildarmeistaratitlinum frá okkur eftir þetta tap. Það er erfitt að vinna leiki þegar þú ert að fá á þig 30 mörk eða meira í nánast hverjum leik og þrátt fyrir flotta frammistöðu Birkis í markinu þá fengum við á okkur 34 mörk og það bara gengur ekki,“ sagði Einar Rafn, sem var markahæstur í liði FH með 9 mörk.

„Við vorum alltaf að elta í seinni hálfleiknum. Það gekk alveg upp hjá okkur að fara sjö gegn sex og við fengum það nokkrum sinnum í bakið þegar Selfyssingar skoruðu í autt markið. Við þurfum að fara vel yfir okkar mál og laga það sem þarf að laga áður en úrslitakeppnin byrjar,“ sagði Einar Rafn.

mbl.is