Staða Eyjamanna er best – staða FH verst

Eyjamenn fögnuðu bikarmeistaratitlinum á dögunum og þeir eiga góða möguleika …
Eyjamenn fögnuðu bikarmeistaratitlinum á dögunum og þeir eiga góða möguleika á að krækja í deildarmeistaratitilinn á miðvikudagskvöldið. mbl.is/Hari

ÍBV, Selfoss og FH geta öll orðið deildarmeistarar karla í handknattleik fyrir lokaumferð deildarinnar sem leikin verður á miðvikudagskvöldið kemur.

Liðin þrjú eru öll með 32 stig eftir leiki kvöldsins þar sem Selfoss sigraði FH 34:29 í Kaplakrika og ÍBV sigraði Stjörnuna í Eyjum, 29:28.

Möguleikar ÍBV eru mestir. Liðið verður deildarmeistari ef liðin þrjú vinna öll leiki sína í síðustu umferðinni og enda öll með 34 stig. ÍBV heimsækir þá Fram, Selfoss fær Víking í heimsókn og FH-ingar mæta Stjörnunni í Garðabæ. Sama gildir að sjálfsögðu ef öll gera jafntefli eða öll tapa.

Möguleikar Selfyssinga felast í því að FH nái ekki að vinna Stjörnuna, eða ÍBV nái ekki að vinna Fram. Ef Selfoss og ÍBV enda jöfn og efst í deildinni með 34 stig (eða 33 stig) ræður heildarmarkatalan úrslitum því þau unnu hvort annað með einu marki í deildinni. Þá eru Selfyssingar með sjö marka forskot á ÍBV og Eyjamenn yrðu því að vinna átta mörkum stærri sigur á Fram en Selfoss myndi vinna á Víkingum, til að fara uppfyrir Selfyssingana.

Möguleikar FH-inga eru minnstir og felast einfaldlega í því að þeir vinni Stjörnuna en hvorki Selfossi né ÍBV takist að landa sigrum í sínum leikjum. FH tapaði öllum fjórum leikjum sínum gegn Selfossi og ÍBV í deildinni í vetur og verður alltaf neðst af þeim liðum sem verða jöfn að stigum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert