Stefnum allar í sömu átt

Birna Berg Haraldsdóttir verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu í …
Birna Berg Haraldsdóttir verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu í handknattleik gegn Slóvenum í undankeppni EM. Leikurinn fer fram í Laugardalshöll og verður aðgangur ókeypis á leikinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ef við ætlum okkur að ná árangri í riðlakeppninni og vera með í kapphlaupinu um sæti í lokakeppni EM þá verðum við að vinna þennan leik, það er alveg ljóst,“ sagði Birna Berg Haraldsdóttir, landsliðskona í handknattleik um leikinn við Slóvena í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer í Laugardalshöll annað kvöld og hefst klukkan 19.30.

„Það er góð stemning innan hópsins og mikill hugur í okkur fyrir þessa viðureign. Eftir tvo tapleiki  í fyrstu tveimur viðureignum undankeppninni þá ríkti talsverða vonbrigði innan hópsins. Við töpuðum með of miklum mun leiknum í Tékklandi og áttum ekki möguleika gegn Dönum. Eftir þessa leiki höfum við stokkað upp spilin. Fórum í góða æfingaferð til Þýskalands og Slóvakíu í lok nóvember sem skilað góðum árangri og lyfti talsvert standardinum hjá okkur.  Nú er mikilvægast að við leikum okkar leik og gerum okkar besta. Það er ekkert verra en að ganga út af leikvellinum eftir tap og vita að maður hefði getað gert mikið betur í leiknum,“ sagði Birna Berg sem leikur með danska liðinu Aarhus United.

Birna segir að þær miklu breytingar sem Axel landsliðsþjálfari Stefánsson hefur beitt sér fyrir, jafnt í vörn sem sókn séu spennandi og hluti breytinganna hafi skilað sér vel í vináttuleikjum við Slóvaka í lok nóvember. „Mér finnst varnarleikurinn til dæmis sérlega spennandi. Hann er ekki líkur neinu sem ég hef áður leikið með mínum félagsliðum í gegnum tíðina. Mér finnst þetta konsept sem Axel er að vinna eftir. Við höfum tekið þátt í þessu með honum af heilum hug og mér finnst við allar stefna í sömu áttina.  Ef við höldum okkar striki þá held ég eftir tvö til þrjú ár þá verðum við í góðum málum. Vonandi verðum við komnar á stórmót eftir að minnsta kosti þrjú ár,“ sagði Birna Berg Haraldsdóttir, landsliðskona í handknattleik.

Frítt verður inn á leikinn við Slóvena í Laugardalshöll annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert