Ætlum að láta finna fyrir okkur

Axel Stefánsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik. Lið verður í eldlínunni …
Axel Stefánsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik. Lið verður í eldlínunni í Laugardalshöll í kvöld gegn Slóvenum í undankeppni Evrópumótsins. mbl.is/Eggert Jóhannsson

„Þetta er lið sem eigum að geta unnið á heimavelli þótt það sé það sterkasta úr þriðja styrkleikaflokki, það er flokknum fyrir ofan okkur,“ sagði Axel Stefánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna spurður um andstæðinga íslenska landsliðsins, Slóvena, en þjóðirnar leiða saman hesta sína í Laugardalshöll í kvöld í undankeppni Evrópumótsins. Leikurinn hefst kl. 19.30 og er aðgangur ókeypis fyrir alla.

„Við ætlum okkur að fara inn í leikinn af miklum krafti og láta finna fyrir okkur frá fyrstu mínútu og reyna um leið að leika af klókindum,“ sagði Axel sem telur sig hafa búið landsliðið eins vel undir leikinn og kostur er á þeim skamma tíma gefist hefur.

Slóvenar eru með eitt stig að loknum tveimur leikjum í undankeppninni. Íslenska landsliðið er án stiga, einnig eftir tvær viðureignir. Tékkar hafa þrjú stig en Danir eru efstir í riðlinum með fjögur stig.

Axel segir að slóvenska liðið sé skipað nokkrum framúrskarandi leikmönnum. Má þar nefna örvhentu skyttuna Önu Gros og leikstjórnandann Tjasa Stanko en sú síðarnefnda er talin vera ein efnilegasta handknattleikskona Evrópu um þessar mundir.  Axel segir að breiddin í leikmannahópi Slóvena sé e.t.v. ekki mikil.

„Ef okkur tekst að stöðva lykilmenn Slóvena þá er ljóst að þeir hafa ekki úr sömu breidd í leikmannahópnum og til dæmis Tékkar og Danir svo dæmi séu tekin af landsliðum sem eru með okkur í riðli,“ sagði Axel sem vonast til þess að áhorfendur fjölmenni í Laugardalshöll í kvöld og hvetji íslenska landsliðið til dáða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert