Áttum í vandræðum allan leikinn

Bjarki Már Gunnarsson.
Bjarki Már Gunnarsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Við áttum í vandræðum allan tímann í þessum leik og sérstaklega var varnarleikurinn lélegur af okkar hálfu,“ sagði Stjörnumaðurinn Bjarki Már Gunnarsson við mbl.is eftir 12 marka tap gegn FH, 38:26, í lokaumferð Olís-deildar karla í Ásgarði í Garðabæ í kvöld.

„Ég hef ekki tölu yfir öll hraðaupphlaupsmörkin sem FH skoraði í þessum leik en þetta var einn af þeim leikjum sem ekkert gengur upp. Ég veit ekki hvað fór úrskeiðis hjá okkur. Við ætluðum að gefa allt í leikinn en það fór ekki svo,“ sagði Bjarki Már.

Stjarnan hafnaði í 7. sæti í deildinni og mætir Selfyssingum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

„Það er alveg ljóst að við þurfum að laga mikið í okkar leik þegar út í úrslitakeppnina er komið. Það heldur áfram að kvarnast úr liði okkar en við verðum bara að þjappa okkur saman,“ sagði Bjarki Már.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert