EHF tók ekki í mál að færa til landsleikinn

Birna Berg Haraldsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Birna Berg Haraldsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við stefndum á að landsleikurinn hæfist klukkan 18.15 en ekki 19.30 og vorum búnir að hnýta alla enda þegar Handknattleikssamband Evrópu neitaði að breyta tímasetningu landsleiksins og við það situr. Þetta er stutta skýringin,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, í gær spurður af hverju landsleikur Íslands og Slóveníu hæfist klukkustund á undan lokaumferð Olísdeildar karla.

„Við urðum að leika lokaumferðina í Olísdeildinni þennan dag vegna þátttöku ÍBV í Evrópukeppni. Þeir fara til Rússlands á fimmtudagsmorgun og því miður fengum við ekki að flýta landsleiknum. Þess vegna er staðan svona,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ.