Fannar heldur ekki áfram hjá Hamm

Fannar Þór Friðgeirsson.
Fannar Þór Friðgeirsson. Ljósmynd/hagen-handball.de

Handknattleiksmaðurinn Fannar Þór Friðgeirsson endurnýjar ekki samning sinn hjá þýska B-deildarliðinu ASV Hamm-Westfalen þegar núverandi samningur rennur út um mitt þetta ár.

Kay Rothenpieler, þjálfari ASV Hamm, staðfesti þetta í samtali við handball-world í gær en nokkur uppstokkun verður á leikmannahópi liðsins eftir keppnistímabilið. Fleiri leikmenn liðsins en Fannar Þór róa á ný mið á næstu leiktíð.

Fannar Þór sagði við mbl.is að hann hafi ekki sóst eftir nýjum samningi. Nokkuð væri síðan að hann og fjölskyldan hafi ákveðið að söðla um og flytja jafnvel heim til Íslands í sumar eftir átta ár í Þýskalandi. 

Fannar Þór hefur leikið með ASV Hamm undanfarin tvö ár. Áður hefur hann leikið með, Grosswallstadt, Eintracht Hagen og Emsdetten í B-deildinni og Wetzlar í A-deildinni.

Fannar, sem stendur á þrítugu, lék með Val hér heima áður en hann flutti til Þýskalands sumarið 2010.