Síðasta skotið tryggði ÍBV deildartitilinn

ÍBV er deildarmeistari í Olísdeild karla í handbolta eftir hádramatík í Safamýrinni í kvöld. ÍBV vann þá Fram, 34:33 í lokaumferðinni og skoraði Agnar Smári Jónsson sigurmarkið, sex sekúndum fyrir leikslok og tryggði ÍBV deildartitilinn með síðasta marki tímabilsins í deildarkeppninni. 

Mikið jafnræði var með liðunum til að byrja með og var jafnt á öllum tölum þangað til ÍBV komst í 10:8 um miðbik fyrri hálfleiks. Þá kom fínn kafli hjá Frömurum og voru þeir komnir þremur mörkum yfir, skömmu fyrir hálfleik, 16:13. ÍBV jafnaði skömmu síðar, en þá kom aftur góður kafli hjá heimamönnum og voru þeir með 19:17-forystu í hálfleik.

Eins og tölurnar gefa til kynna var varnarleikurinn í algjöru aukahlutverki og markmenn vörðu lítið. Munurinn var á milli þrjú og fjögur mörk allan fyrri hluta síðari hálfleiks. Illa gekk hjá ÍBV að minnka muninn og virtist deildarmeistaratitilinn vera að renna þeim úr greipum. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður var staðan 26:22, Fram í vil.

Eyjamenn skoruðu þá tvö mörk og minnkuðu muninn í 26:24. Gestirnir unnu svo boltann og gátu minnkað muninn í eitt mark, en rafmagnið fór af Framhúsinu í miðju hraðaupphlaupi og var leikurinn stöðvaður í um tíu mínútur. Það virtist angra Eyjamenn lítið því þeir skoruðu þrjú mörk á skömmum tíma í kjölfarið og komust yfir, 27:26. Framarar skoruðu næstu tvö mörk og var staðan þá 28:27 og svo 28:28 og stefndi í æsispennandi lokamínútur.

Þegar um 20 sekúndur voru eftir var staðan 33:33 og Eyjamenn fengu tækifæri til að tryggja sér deildartitilinn með sigurmarki. Agnar Smári Jónsson sótti þá á vörnina og skoraði gott mark, sex sekúndum fyrir leikslok, og Eyjamenn enda í fyrsta sæti. 

Fram 33:34 ÍBV opna loka
60. mín. 40 sekúndur eftir þegar Fram fær aukakast...
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert