Gaman að klukka nokkra bolta

Hildigunnur Einarsdóttir stóð í stórræðum í leiknum við Slóvena í …
Hildigunnur Einarsdóttir stóð í stórræðum í leiknum við Slóvena í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Það var mjög gaman að koma inn á og hitta á góðan leik,“ sagði markvörðurinn þrautreyndi Guðný Jenný Ásmundsdóttir sem kom í mark Íslands þegar tæplega stundarfjórðungur var til leiksloka gegn Slóvenum í Laugardalshöllinni og varð eins berserkur. Það nægði þó ekki eitt og sér til sigur því leiknum lauk með jafntefli, 30:30, en viðureignin var liður í undankeppni EM í handknattleik kvenna.

Segja má að frammistaða Jennýjar hafi kveikt í íslenska liðinu sem var fjórum mörkum undir, 24:20, þegar Jenný birtist í markinu en skömmu síðar var Ísland komið yfir, 25:24.

„Mér tókst að klukka nokkra bolta og það hefur kannski sent ákveðin skilaboð út í liðið, eitthvað sem okkur vantaði á þessum kafla leiksins.  Um leið lifnaði yfir sóknarleiknum. Vörnin var yfirhöfuð góð í leiknum,“ sagði Jenný. „Því miður þá vantaði okkur herslumuninn upp á vinna leikinn í lokin,“ sagði Jenný og minnti á Slóvenar hafi náð góðum úrslitum gegn sterkum landsliðum á síðustu mánuðum, m.a. unnið Frakka á HM í Þýskalandi í desember.

„Slóvenar eru með hörkulið og mér fannst við eiga í fullu tré við þær að þessu sinni. Við getum þetta svo sannarlega alveg. Við þurfum bara að halda áfram okkar vinnu þá munum við bæta okkur jafnt og þétt. Okkar lið hefur gengið í gegnum miklar breytingar á skömmum tíma. Þessu leikur er mikill lærdómur fyrir okkur. Við verðum að halda ótrauðar áfram,“ sagði Guðný Jenný Ásmundsdóttir, markvörður íslenska landsliðsins eftir jafnteflið við Slóvena í  Laugardalshöll í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert