ÍBV án tveggja sterkra í kvöld

Róbert Aron Hostert verður ekki með ÍBV gegn Fram í …
Róbert Aron Hostert verður ekki með ÍBV gegn Fram í kvöld vegna axlarmeiðsla. Ljósmynd/Sigfús Gunnar Guðmundsson

Það verður skarð fyrir skildi í liði ÍBV í kvöld þegar það mætir Fram í lokaumferð Olísdeildar karla í handknattleik en fyrir leiki lokaumferðarinnar stendur ÍBV best að vígi af liðunum þremur sem eru efst og jöfn að stigum.

Hornamaðurinn Theodór Sigurbjörnsson og leikstjórnandinn Róbert Aron Hostert verða ekki í liði ÍBV í kvöld gegn Fram. Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, staðfesti þetta í samtali við mbl.is í morgun. Theodór er að jafna sig eftir að hafa verið rotaður á dögunum. Róbert Aron er frá vegna meiðsla í öxl sem hann varð fyrir í kappleik við Stjörnuna í næst síðustu umferð deildarinnar á sunnudagskvöld.

Theodór Sigurbjörnsson verður sem fyrr fjarri góðu gamni þegar ÍBV …
Theodór Sigurbjörnsson verður sem fyrr fjarri góðu gamni þegar ÍBV sækir Fram heim í lokaumferð Olísdeildarinnar í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Róbert á tíma í dag í ómskoðun á öxlinni. Þar mun væntanlega skýrast hversu alvarleg meiðsli hans eru,“ sagði Arnar.  Hann staðfesti hinsvegar að Róbert Aron fari með ÍBV-liðinu til Rússlands í fyrramálið en ÍBV leikur við Krasnodar ytra á sunndag í 8-liða úrslitum Áskorendabikars Evrópu. Ljóst er hinsvegar að Theodór verður eftir heima.

Leikur ÍBV og Fram hefst kl. 20.30 í kvöld eins og aðrir leikir lokaumferðarinnar en þeir eru:

Ásgarður: Stjarnan - FH

Framhús: Fram - ÍBV

Varmá: Afturelding - ÍR

Selfoss: Selfoss - Víkingur

Hertz-höllin: Grótta - Fjölnir

Schenkerhöllin: Haukar - Valur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert