Nú fer vinna í að styrkja hópinn

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram.
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, var vonsvikinn eftir 34:33-tap sinna manna gegn ÍBV í lokaumferð Olísdeildar karla í handbolta. Framarar voru yfir stærstan hluta leiks en Eyjamenn tryggðu sér sigur með marki sex sekúndum fyrir leikslok og deildarmeistaratitilinn í leiðinni. 

„Það er hundleiðinlegt að fá ekkert úr þessu. Við lögðum okkur alla í þennan leik og við sýndum hvað við getum. Við vorum óheppnir að einhverju leyti og það er sorglegt að ná ekki einu stigi úr þessu. Ég er mjög stoltur af drengjunum, þeir voru frábærir og þessi leikur er góður fyrir sjálfstraustið á næsta ári."

Hvað klikkaði hjá Fram í lokin? 

„Það kom smá óðagot og við töpum boltanum nokkrum sinnum mjög illa. Það var eitthvað stress hjá ungum leikmönnum og það er eðlilegt. Menn þurfa að læra."

ÍBV vann Fram í bikarúrslitum fyrr í mánuðinum og vildi Guðmundur kvitta fyrir það.

„Það var númer 1,2 og 3 að kvitta fyrir bikarúrslitin. Fyrst og fremst hugsum við um að vinna og númer tvö er að spila okkar besta leik og við spiluðum mjög góðan leik í dag. Ég er mjög ánægður með það og ég óska ÍBV innilega til hamingju. Þeir eru vel að þessu komið."

Hann var heilt yfir þokkalega ánægður með tímabilið. Bikarúrslit, en engin úrslitakeppni. 

„Ég er mjög sáttur með að fara í Final four en ég er ósáttur að ná ekki inn í úrslitakeppnina. Það er ekkert leyndarmál. Við vorum mjög óheppnir, við missum Togga [Þorgeir Bjarka Davíðsson] fyrir tímabilið og Gauti er frá í sex mánuði. Svo voru önnur smávægileg meiðsli sem skiptu máli. Heilt yfir var þetta tímabil allt í lagi og á pari. Ég hefði viljað sjá örlítið meira. Ef maður hugsar til baka eru þetta nokkrar sendingar hér og þar í nokkrum leikjum."

Hann segir vinnu vera komna í gang við að styrkja leikmannahóp Fram. 

„Við ætlum okkur sjálfsögðu að reyna að styrkja hópinn eitthvað. Það verður bara að koma í ljós. Nú fer sú vinna að styrkja hópinn á fullt. Í fyrra voru öll liðin að styrkja sig nema við. Við sátum pínu eftir út af því. Að öðru leyti ætlum við að halda áfram og byggja ofan á þetta. Menn verða einu ári eldri og reynslunni ríkari," sagði Guðmundur Helgi. 

mbl.is