Okkar besti leikur eftir áramót

Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH,
Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH, mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásbjörn Friðriksson fyrirliði FH-inga var ánægður með frammistöðu FH-liðsins í kvöld sem pakkaði Stjörnumönnum saman í lokaumferð Olís-deildar karla í handknattleik í Ásgarði í Garðabæ í kvöld. FH vann stórsigur, 38:26.

„Við erum búnir að vera að strögla aðeins síðustu vikurnar. Það er búið að vera töluvert um meiðsli og við höfum ekki náð að stilla upp okkar sterkasta liði ansi lengi. Þetta tók meira á okkur en við héldum. En við náðum heilsteyptum leik í kvöld og það er langt síðan vörn, hraðaupphlaup, vörn og almennilegur sóknarleikur hefur sést hjá okkur. Þetta er besti leikur okkar eftir áramótin,“ sagði Ásbjörn við mbl.is eftir leikinn.

„Það var kærkomið að fá þessa frammistöðu inn í pásuna sem fram undan er þar sem við þurfum að halda áfram að vinna í okkar málum. Við getum að vísu ekki æft margir saman því ég held að hálf liðið sé á leið í landsliðsverkefni með A og B landsliðunum. Við hinir þurfum bara að æfa eins og menn,“ sagði Ásbjörn, sem stjórnaði leik sinna manna af mikilli og skoraði 5 mörk.

FH-ingar sem voru lengi í forystusætinu enduðu í 3. sæti með jafnmörg stig og ÍBV og Selfoss og FH mætir Aftureldingu í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

„Við spiluðum bara ekki nógu vel í síðustu leikjunum til að landa deildarmeistaratitlinum en einu tapleikir okkar voru á móti toppliðunum tveimur. Það reyndist dýrt þegar upp var staðið. Nú bíður Afturelding okkar í úrslitakeppninni og það verða erfiðir leikir. Við þurfum heilsteypta leiki til að komast í gegnum Aftureldingarliðið.

Við þurfum að mæta klárir frá fyrsta flauti og við þurftum á þessari frammistöðu að halda í kvöld,“ sagði Ásbjörn en FH vann deildarmeistaratitilinn á síðustu leiktíð en tapaði í úrslitaeinvíginu fyrir Val þar sem úrslitin réðust í oddaleik í Kaplakrika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert