Ótrúlega ánægður með þetta

Eyjamenn eru deildarmeistarar og fagna hér í leikslok.
Eyjamenn eru deildarmeistarar og fagna hér í leikslok. mbl.is/Árni Sæberg

„Það var þvílíkur karakter og þvílíkur vilji hjá okkur, er ekki þvílíkur þá orðið?“ sagði skærbrosandi Arnar Pétursson í samtali við mbl.is eftir 34:33-sigurinn á Fram í lokaumferð Olísdeildar karla í handbolta í kvöld. Með sigrinum tryggði ÍBV sér deildarmeistaratitilinn, en Agnar Smári Jónsson skoraði sigurmarkið, sex sekúndum fyrir leikslok.

„Þetta var frábært og algjörlega til fyrirmyndar. Menn komu til baka eftir frekar dapran fyrri hálfleik. Þá var einhver spenna í okkur og við ólíkir sjálfum okkur. En í lokin vorum við frábærir og sérstaklega á seinustu tveimur mínútunum."

Arnar er hæstánægður með deildartitilinn eftir viðburðaríkt tímabil. 

„Við vorum ekkert að spá í öðrum leikjum, við ákváðum það fyrir leik. Það var yndisleg tilfinning að landa þessu titli líka. Auðvitað er hann á einhvern hátt vanmetinn, en allir sem vinna hann segja það sama; þetta er erfiðasti titilinn til að vinna. Við erum búnir að vera í Evrópukeppni með þessu og höfum ferðast langt og það hefur tekið sinn toll. Á meðan höfum við verði í meiðslum, þó við höfum ekki haft hátt um það. Ég er búinn að spila á öllu mínu liði í einhverjum þremur leikjum í vetur, svo ég er ótrúlega ánægður með þetta."

ÍBV mætir Krasnodar á útivelli í Áskorendakeppni Evrópu á laugardaginn kemur og er því nóg um að vera hjá Eyjamönnum á næstu dögum.

„Við gerðum okkur full erfitt fyrir og það verður lítið sofið fyrir flugið í fyrramálið. Það er hins vegar þeim mun sætara að fara þessa leið í þessu, þó ég vilji alls ekki endurtaka það."

„Nú fáum við okkur eitthvað að borða og við reynum að koma okkur niður. Við þurfum að fara upp á völl rétt fyrir 4 í nótt og við fljúgum til Helsinki á morgun. Þar ætlum við að slaka á og njóta þess að vera þar, fara í ísböð og heitt á milli. Svo höldum við áfram til Krasnodar á föstudaginn."

Arnar hefur áhyggjur á að Róbert Aron Hostert leiki ekki meira með ÍBV á leiktíðinni. Theodór Sigurbjörnsson verður hins vegar klár í bátana von bráðar. 

„Skoðunin á Robba kom ekki vel út í dag og ég veit ekki hvort þetta sé búið hjá honum eða ekki. Við verðum að vona það besta. Teddi er allur að koma, ég á von á honum von bráðar. Hann fer ekki með okkur út samt. Við verðum án þeirra þar," sagði Arnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert