Tilfinningarnar eru blendnar

Karen Knútsdóttir
Karen Knútsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var svekkjandi að vinna ekki því mér fannst leikurinn þróast þannig síðustu tíu mínúturnar eins og við myndum vinna,“ sagði Karen Knútsdóttir, leikstjórnandi íslenska landsliðsins í handknattleik, eftir jafntefli, 30:30, við Slóvena í undankeppni EM í Laugardalshöll í kvöld. Karen kom íslenska liðinu yfir, 30:29, með marki úr vítakasti þegar um 20 sekúndur voru til leiksloka en Slóvenar áttu einn ás eftir uppi í erminni sem þær nýttu til þess að jafna metin þegar fimm sekúndur voru eftir.

„Slóvenar léku með sjö leikmenn í sókninni, tóku markvörðinn út af, í lokasókninni. Þá kom ákveðin panik í varnarleikinn okkar en þegar öllu er á botninn hvolft þá töpuðum við ekki öðru stiginu á þessari lokasókn Slóvena  þegar öllu er botninn hvolft,“ sagði Karen sem var stolt af íslenska liðinu sem lagði sig allt fram frá upphafi til enda.

„Allir lögðu sig fullkomlega fram og ég er afar stolt af liðinu. Það hefði verið mjög gott að fá bæði stigin. Heildarbragurinn á liðinu hefur batnað mikið. Tilfinningar mínar eru blendnar, svekkt yfir að fá ekki bæði stigin en hinsvegar ánægð með að okkur tókst að spila mjög vel,“ sagði Karen og bætti við.

„Hver mistök í leik eru dýr í svona jöfnum leik. Varnarleikur okkar og marverðir voru frábærir en hver mistök okkar í sókninni kosta sitt. Við náðum ekki að refsa þeim fyrir þeirra mistök á sama hátt og þær refsuðu okkur. Því fór sem fór,“ sagði Karen sem lék sinn fyrsta landsleik í nærri því ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert