Annað krossbandaslit á einu ári

Jón Kristinn Björgvinsson, ÍR, verður frá keppni næstu mánuði vegna …
Jón Kristinn Björgvinsson, ÍR, verður frá keppni næstu mánuði vegna slitins krossband í vinstra hné. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Kristinn Björgvinsson, handknattleiksmaður hjá ÍR, verður ekki meira með liðinu á keppnistímabilinu eftir að hann sleit krossband í vinstra hné fyrir nokkrum dögum. 

Þetta er í annað sinn á um ári sem Jón Kristinn verður fyrir því óláni að slíta krossband í hné en hann hafði nýverið byrjað að leika með ÍR aftur eftir að hafa slitið krossband í hægra hné undur lok leiktíðar fyrir um ári.  Jón Kristinn hafði náð að leika fimm leiki í deildinni og skoraði 13 mörk þegar krossbandið  í vinstra hné slitnaði á dögunum.

Talsvert er um meidda leikmenn í herbúðum ÍR-inga. Var það ástæðan fyrir að ÍR-ingar voru langt frá að stilla upp sínu sterkasta liði gegn Aftureldingu í lokaumferð Olísdeildar karla sem fram fór í gærkvöldi. Enginn þeirra ÍR-inga sem var fjarri góðu gamni í gærkvöldi er þó eins alvarlega meiddur og Jón Kristinn. 

ÍR-ingar mæta ÍBV í átta liða úrslitum Íslandsmótsins þegar úrslitakeppnin hefst um miðjan næsta mánuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert