Dauðafæri til að komast á tíunda EM í röð

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland hefur verið með í hverri einustu lokakeppni Evrópumóts karla í handknattleik á þessari öld, allt frá EM í Króatíu árið 2000. Það þyrfti mikið að fara úrskeiðis hjá íslenska landsliðinu í undankeppninni sem fer af stað næsta haust ef það yrði ekki með í tíundu lokakeppninni í röð árið 2020. Nánast væri hægt að tala um stórslys.

Hingað til hafa sextán þjóðir leikið til úrslita á EM, ef undanskilin eru fyrstu árin, til ársins 2000, þegar þau voru tólf. Nú er þeim fjölgað enn frekar og 24 lið leika í lokakeppninni árið 2020.

Dregið verður í riðla fyrir EM 2020 í Þrándheimi fimmtudaginn 12. apríl. Undankeppnin hefst í haust og lýkur í júní 2019.

Önnur nýjung er á döfinni því þrjár þjóðir skipta með sér gestgjafahlutverkinu, Svíþjóð, Austurríki og Noregur. Þessar þjóðir fara allar beint á EM, sem og ríkjandi Evrópumeistarar, Spánverjar.

Það kemur í hlut 32 þjóða að heyja riðlakeppni árin 2018 til 2019 um hvaða 20 þjóðir bætast í hópinn og fara í lokakeppnina. Þar leika þjóðirnar 32 í átta riðlum. Tvö efstu liðin komast á EM og einnig þau fjögur lið sem verða með bestan árangur í þriðja sæti. Alls fara því 20 lið af 32 áfram.

Dauðafæri en hægt að fá snúinn riðil

Ísland er í öðrum styrkleikaflokki og getur ekki mætt neinu liði þaðan. Sleppur þar m.a. við Pólverja, Serba, Tékka og Rússa. Íslenska liðið, undir stjórn Guðmundar Þ. Guðmundssonar, mætir einni þjóð úr 1. flokki, einni úr 3. flokki og einni úr 4. flokki.

Vissulega lenti Ísland í talsverðu basli með að komast í síðustu 16 liða Evrópukeppnina sem fór fram í byrjun þessa árs í Króatíu. Liðið hafnaði í þriðja sæti í sínum riðli undankeppninnar en slapp áfram á því að vera með besta árangurinn þar. En þegar styrkleikaflokkarnir eru skoðaðir þá er liðið í sannkölluðu dauðafæri.

Það væri reyndar hægt að lenda í snúnum riðli ef mótherjarnir yrðu t.d. Frakkland, Úkraína og Rúmenía. Sennilega yrði riðillinn í erfiðasta kantinum ef tvö síðarnefndu liðin kæmu upp úr pottinum úr 3. og 4. styrkleikaflokki, hver svo sem andstæðingurinn yrði úr fyrsta flokki.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag