Þakklátur fyrir að vera í svona liðum

Aron að skora eitt af fjórum mörkum sínum í kvöld.
Aron að skora eitt af fjórum mörkum sínum í kvöld. Ljósmynd/twitter-síða Barcelona

Aron Pálmarsson er vanur því vinna titla með liðum sínum og í kvöld vann hann einn slíkan þegar Barcelona tryggði sér meistaratitilinn í spænsku 1. deildinni eins og fram kom á mbl.is fyrr í kvöld.

„Þetta var hörkuleikur en við náðum að sigla frammúr síðustu fimm mínútur leiksins. Við eigum samt að gera betur heldur en við gerðum í kvöld,“ sagði Aron Pálmarsson þegar mbl.is ræddi við hann í kvöld.

Þetta var áttundi meistaratitill Arons á ferlinum. Hann varð fimm sinnum þýskur meistari með Kiel, tvívegis með ungverska liðinu Veszprém og nú með Barcelona. Hann varð bikarmeistari í tvígang með Kiel og Vezprém og vann bikarkeppnina með Barcelona fyrr á tímabilinu og þá vann Evrópumeistaratitilinn tvisvar sinnum með Kiel.

Aron og félagar fagna meistaratitlinum í búningsklefanum í kvöld.
Aron og félagar fagna meistaratitlinum í búningsklefanum í kvöld. Ljósmynd/twitter

„Þetta er ansi mikill og góður vani. Síðan ég fór út í atvinnumennskuna er bara eitt ár sem ég hef ekki orðið landsmeistari. Það er alltaf geggjað að verða meistari og ég er bara þakklátur fyrir að vera í svona liðum. Við erum búnir að bíða eftir því að geta gert út um deildarmeistaratitilinn. Nú er það í höfn og þá tekur við Meistaradeildin,“ sagði Aron, sem ungur að árum yfirgaf FH árið 2009 og gekk til liðs við Kiel.

Aron og félagar fá lítinn sem engan tíma til að fagna meistaratitlinum því á laugardaginn tekur Barcelona á móti franska liðinu Montpellier í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Montpellier vann fyrri leikinn í Frakklandi um síðustu helgi, 28:25.

„Þessi vika er búin hefur að mestu leyti snúist um leikinn á móti Montpellier. Það verður lágmarks fögnuður í kvöld enda æfing strax í fyrramálið og leikurinn við Montpellier á laugardaginn.

Ég er bjartsýnn á að við náðum að snúa þessu við og slá franska liðið úr leik. Okkur fannst við geta gert miklu betur í fyrri leiknum og þá einkum þegar á leikinn leið. Við fórum illa með dauðafærin og markvarslan var ekki góð. En við ætlum okkur áfram,“ sagði Aron en ef Barcelona nær að slá Montpellier út bíður þýska liðið Flensburg í átta liða úrslitunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert