Það verður enginn sópur á lofti

Einar Ásgeirsson sækir að vörn FH í kvöld.
Einar Ásgeirsson sækir að vörn FH í kvöld. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Við vorum að elta allan leikinn en ég var ánægður með baráttuna og kraftinn á lokakaflanum og hann gefur okkur gott veganesti í leikinn á sunnudaginn,“ sagði Einar Ingi Hrafnsson línumaður Aftureldingar við mbl.is eftir tap sinna manna gegn FH, 34:32, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum úrvalsdeildar karla í handbolta í Kaplakrika í kvöld.

„Lalli kom okkur inn í leikinn með góðri markvörslu og við hefðum mátt fá hana fyrr og við að hjálpa honum betur í varnarleiknum. Við töpuðum allt of mikið stöðunni maður á mann og við réðum illa við Gísla Þorgeir í þeirri stöðu. Við þurfum að mæta honum af meiri hörku.

Við verðum að mæta dýrvitlausir í næsta leik á sunnudaginn og spila þann leik með svipuðu hætti og við lukum þessum leik. Við náðum að gera leik úr þessu eftir að hafa verið sjö mörkum undir um miðjan seinni hálfleik. Þetta alls ekki búið þrátt fyrir þessi úrslit. Það er fullt af hlutum sem við getum lagað í okkar leik og ég get lofað þér því að það verður enginn sópur á lofti eins og í fyrra þegar þessi lið áttust við. Næsti leikur er lykilleikur í þessu einvígi og við ætlum að koma til baka í þeim leik,“ sagði Einar Ingi vi mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert