Öruggt hjá Selfossi í fyrsta leik einvígisins

Aron Dagur Pálsson og Teitur Örn Einarsson eigast við en …
Aron Dagur Pálsson og Teitur Örn Einarsson eigast við en Bjarki Már Gunnarsson og Elvar Jónsson fylgjast með. mbl.is/Árni Sæberg

Selfyssingar unnu öruggan sigur á Stjörnunni í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum um Íslandsmeistaratitil karla í handbolta í dag. Lokatölur urðu 33:25.

Leikurinn var jafn fyrstu fimmtán mínúturnar en þá skoruðu Selfyssingar fjögur mörk í röð og breyttu stöðunni úr 4:4 í 8:4. Þeir litu ekki um öxl eftir það og allar tilraunir Stjörnunnar til þess að minnka muninn voru misheppnaðar.

Staðan var 15:10 í leikhléi og munurinn hélst í sex mörkum lengst af seinni hálfleik. Öruggt hjá Selfyssingum.

Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk og Árni Steinn Steinþórsson skoraði 7. Sölvi Ólafsson varði 10 skot í marki Selfoss. Hjá Stjörnunni skoruðu Leó Snær Pétursson og Egill Magnússon báðir 6 mörk. Lárus Gunnarsson varði 7 skot í marki Stjörnunnar í seinni hálfleik.

Liðin mætast öðru sinni í Garðabæ á mánudagskvöldið.

Selfoss 33:25 Stjarnan opna loka
60. mín. Stjarnan tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert