Guðjón þolir ekki að maður gagnrýni það

Einar Andri Einarsson tók við sem þjálfari Aftureldingar í apríl ...
Einar Andri Einarsson tók við sem þjálfari Aftureldingar í apríl 2014, fyrir fjórum árum. mbl.is/Eggert

„Við töpuðum fyrir betra liði,“ segir Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, en liðið er komið í sumarfrí eftir 2:0-tap gegn FH í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta.

Afturelding tapaði seinni leik liðanna í Mosfellsbæ í dag, 27:23, og er þar með komin í sumarfrí.

„Mér fannst við leggja allt í þetta í dag. Við byrjuðum leikinn af miklum krafti og sköpuðum mikið af dauðafærum í fyrri hálfleik til að hafa betri stöðu að honum loknum. En það eru mikil gæði í FH-liðinu. Við höfum verið að púsla liðinu saman á síðustu vikum en vonuðumst til að við yrðum sterkari á þessum tíma. Það hefði verið gaman að koma þessu í oddaleik,“ segir Einar Andri.

Afturelding var undir stærstan hluta leiksins, eftir góða byrjun, og var í stöðugum eltingarleik í seinni hálfleiknum. Í stöðunni 24:19, þegar tæpar átta mínútur voru til leiksloka, fékk Afturelding tvær brottvísanir í röð án þess þó að um nokkurt brot inni á vellinum væri að ræða, og í kjölfarið gekk FH endanlega frá leiknum:

„Það var engin ókurteisi þarna“

„Það var röng skipting hjá okkur, sem er alveg eðlilegt að gerist, og í þeim tilfellum fáum við að velja mann til þess að fara út af. Í þessu tilfelli vildu menn meina annað. Böðvar [Páll Ásgeirsson] fattaði að við værum of margir inni á vellinum og reyndi að hlaupa af velli áður en leikurinn byrjaði að nýju. Því vildu eftirlitsmenn meina að hann hefði átt vitlausu skiptinguna, en það er frekar einkennilegt að halda að aðalvarnarmaður liðsins eigi ekki að vera inni á í vörninni. Einar Sveinsson, annar tveggja eftirlitsmanna, samþykkti þessi rök en Guðjón L. Sigurðsson kom þá til og breytti því. Guðjón þolir það ekki að maður gagnrýni það. Það var engin ókurteisi þarna. Guðjón gaf bara tvær mínútur eins og hans svör eru. En munurinn var í fimm mörkum þarna svo það var lítill möguleiki til staðar á að breyta niðurstöðu leiksins,“ segir Einar Andri.

Aðspurður um hvernig hann sjái framtíðina fyrir sér segir þjálfarinn: „Við höldum bara áfram. Þetta verður fyrsta sumarið síðan ég kom hingað þar sem enginn er meiddur og frá keppni. Það er jákvætt. Nú förum við í að klára að gera leikmannahópinn fyrir næsta tímabil.“

mbl.is