Hann réðist á klúbbinn og leikmenn

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV.
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, var allt annað en sáttur við Bjarna Fritzson, þjálfara ÍR, eftir leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í dag. ÍBV vann leikinn 30:26, en ÍR fékk þrjú bein rauð spjöld í leiknum. 

„Mér fannst fannst þetta lengst af vera í tómu bulli og handboltanum ekki til framdráttar en þannig er það. Þetta er uppleggið hjá Bjarna Fritzsyni að spila svona handbolta á móti okkur. Þetta er hans leið til að reyna að vinna okkur en sem betur fer gekk það ekki upp hjá honum."

Honum fannst öll þrjú rauðu spjöld ÍR-inga hafa átt rétt á sér, en Elliði Snær Viðarsson fékk einnig beint rautt spjald í liði ÍBV. 

„Mér fannst það og þeir hefðu átt að fá fleiri í fyrri leiknum. Við fengum líka hárrétt rautt spjald. Brotið hjá Elliða var pjúra rautt og það var vel dæmt hjá góðum dómurum leiksins að stoppa þetta og halda utan um þetta svona."

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, sagði í samtali við Vísi eftir fyrsta leik liðanna að leikmenn ÍBV væru viljandi að meiða hans leikmenn. Arnar var allt annað en sáttur við þau ummæli. 

„Ég var mjög ósáttur við þessi ummæli og fannst þau honum til minnkunar og finnst það enn. Hann réðist bæði á klúbbinn okkar og ákveðna leikmenn og þetta var honum til skammar."

Arnar var ánægður með hvernig hans menn komu inn í erfiðan leik og bætir við að heilsa leikmanna ÍBV sé ekki sérstök eftir átökin. 

Héldu haus í gegnum slagsmálin

„Ég var ánægður með að við skildum halda haus í gegnum þessi slagsmál sem ÍR-ingarnir buðu upp á. Það var ákveðið framfaraskref og þroskamerki hjá okkur. Ég er mjög ánægður með það."

„Heilsan á leikmönnum er ekkert sérstök en við höfum langan tíma til að hvíla okkur. Við eigum Evrópuleik í næstu viku og við jöfnum okkur á því. Þetta eru alvöru strákar sem ég er með og ég er ánægður með hvernig þeir tóku þessu í dag og spiluðu sig í gegnum þetta."

Agnar Smári Jónsson spilaði í dag, þrátt fyrir að hann hafi meiðst í fyrsta leiknum. ÍBV mætir Turda frá Rúmeníu í undanúrslitum Áskorendabikarsins á laugardaginn kemur. Arnar er spenntur fyrir því. 

„Við tókum séns með hann. Ef hann hefði ekki spilað í dag hefði hann ekki spilað á þriðjudaginn en sem betur fer fær hann smá pásu núna. Okkur langar áfram. Við erum að fara að spila við mjög gott lið Turda, þeir eru djöfull sterkir. Það verður gaman og ánægjulegt að takast á við þá," sagði Arnar að endingu. 

mbl.is