Það var lítið um handbolta

Róbert Aron Hostert var ekki sáttur við vasklega framgöngu leikmanna ...
Róbert Aron Hostert var ekki sáttur við vasklega framgöngu leikmanna ÍR í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég man ekki eftir því að hafa spilað svona leik. Það var lítið um handbolta og eitt lið var að reyna að fá þetta upp í vitleysu. Við höfðum betur í þessari baráttu og við vinnum þetta einvígi 2:0 og við erum nokkuð sáttir," sagði Róbert Aron Hostert, leikmaður ÍBV, eftir 30:26-sigur á ÍR sem tryggði Eyjamönnum sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins. 

„Varnarleikurinn var virkilega góður, þó við séum mikið manni færri. Skotin sem við vorum að fá á okkur í dag voru skotin sem við vildum fá á okkur. Sóknarleikurinn má alltaf vera betri og það er hægt að bæta hann."

Eyjamenn mæta næst Turda frá Rúmeníu í undanúrslitum Áskorendabikars Evrópu. Valsmenn féllu úr leik á sama stigi keppninnar fyrir ári síðan gegn sömu andstæðingum eftir dómaraskandal. 

„Það er mikilvægt að vinna þetta 2:0. Við erum á leiðinni í Evrópu og það er nóg að gera hjá okkur. Fyrir skrokkinn er alltaf betra að taka þetta 2:0 en að fara í þrjá leiki. Við erum spenntir fyrir framhaldinu. Nú er bara að gíra sig í gang fyrir næsta andstæðing sem er Turda í Evrópukeppninni. Verður maður ekki að standa með íslenskum handbolta og hefna fyrir Valsarana. Það er gaman að við séum að mæta þessu liði á sama stað og Valur í fyrra. Það er bara gaman."

Þetta var glórulaust

Ekki var búist við að Róbert yrði klár í að spila leikina við ÍR vegna meiðsla, en hann er allur að koma til. Hann ræddi svo um rauða spjaldið sem Halldór Logi Árnason fékk fyrir brot á sér. 

„Hún er nokkuð góð þó það vanti upp á spilformið. Þetta er allt að koma þó ég eigi helling í land. Maður getur gert eitthvað og það er gott. Vonandi verður þetta bara batnandi. Þetta var glórulaust. Ég fékk hnefa fyrir aftan mig í smettið. Ég man varla hvað gerðist þarna og ég var ekki einu sinni með boltann. Þetta var ekki handbolti stundum."

Fjögur rauð spjöld litu dagsins ljós í grófum leik. Mikill hiti var á milli leikmanna. 

„Ef þetta verður línan er þetta svolítið bull. Þá verðum við að gíra okkur í hana. Bæði lið voru að berjast og selja okkur dýrt og þessi pakki. Maður vill samt frekar hafa þetta handboltatengt, en þetta er líka gaman inn á milli," sagði Róbert Aron. 

mbl.is