Níu sektaðir fyrir að dreifa myndum af Mørk

Nora Mørk.
Nora Mørk. AFP

Níu aðilar hafa verið sektaðir fyrir að hafa brotist inn í farsíma norsku landsliðskonunnar Noru Mørk og dreift viðkvæmum myndum af henni á netið.

Mennirnir sem hafa verið sektaðir eru frá táningsaldri til fertugs og er þeim gert að greiða 10-15 þúsund norskar krónur í sekt en sú upphæð jafngildir 127 þúsund til 191 þúsund krónum.

Alls var tilkynnt um 15 aðila sem dreifðu myndum af Mørk. Eins og áður segir hafa níu þeirra verið sektaðir, mál gegn tveimur aðilum var látið niður falla en fjórir aðilar eru enn til rannsóknar.

Mørk íhugaði að hætta í norska landsliðinu eftir að málið komst upp en hún var ekki sátt við hvernig norska handknattleikssambandið tók á málinu. En eftir að norska handknattleikssambandið ákvað að breyta öllum sínum vinnureglum er varðar kynferðislega áreitni og hún hafði rætt við landsliðsþjálfarann Þóri Hergeirsson ákvað hún að halda áfram að gefa kost á sér í landsliðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert