„Við vitum hvað við getum“

Hergeir Grímsson skorar eitt tíu marka sinna í kvöld.
Hergeir Grímsson skorar eitt tíu marka sinna í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hergeir Grímsson skoraði 10 mörk fyrir Selfoss í kvöld þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins með útisigri á Stjörnunni 30:28 eftir að hafa verið undir 16:13 að loknum fyrri hálfleik. 

„Það er svo brjálæðislegur karakter í liðinu. Við vitum hvað við getum og náum alltaf að koma til baka. Stjarnan má eiga það að liðið var mjög gott í fyrri hálfleik. Þeir keyrðu yfir okkur og brutu hart á okkur. Um tíma bökkuðum við undan því og vorum hræddir. Það tók okkur smá tíma að ná að vinna forskotið upp,“ sagði Hergeir þegar mbl.is ræddi við hann í Garðabænum. 

Hann er bjartsýnn á framhaldið án þess að vera með miklar yfirlýsingar en ungt lið Selfyssinga hefur nú náð því að komast í undanúrslit bæði í bikarnum og á Íslandsmótinu í vetur. „Markmiðið er að vinna hvern einasta leik en við hugsum bara um næsta leik sem verður á laugardaginn. Við erum bara spenntir fyrir því að spila í undanúrslitum.“

mbl.is