Vorum frábærir á öllum sviðum

Heimir Óli Heimisson átti góðan leik í kvöld.
Heimir Óli Heimisson átti góðan leik í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir Óli Heimisson lék mjög vel í vörn og sókn í 29:19-sigri Hauka á Valsmönnum í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld. Haukar unnu báða leikina og eru því komnir í undanúrslitin. Heimir segir þetta einn besta leik Hauka á tímabilinu. 

„Ég bjóst alltaf við að þetta yrði hörkuleikur, en á móti kemur er þetta örugglega besti leikurinn okkar á tímabilinu. Við vorum frábærir á öllum sviðum þó að það sé hellingur sem við megum laga. Við vorum með átta tæknifeila í hálfleik en varnarleikurinn var frábær og Bjöggi fyrir aftan geggjaður, þetta var yndislegt.“

Valsmenn byrjuðu fyrri leikinn mjög vel og voru með forystu framan af, en Haukar sneru leiknum sér í vil í hálfleik og unnu. Það var svo aldrei spurning hvort liðið myndi vinna í dag. 

„Við fórum ekki eftir leikplaninu í fyrri hálfleiknum á fyrsta leik. Gunni Magg og Bjöggi voru búnir að kortleggja þetta. Um leið og við fórum eftir þeim fyrirmælum gekk þetta fullkomlega upp.“

Haukar mæta ÍBV í undanúrslitum og vill Heimir hefna fyrir tapið í undanúrslitum bikarsins. 

„Við erum ekki í þessu nema til að vinna titla. Haukar eru þannig félag. Núna eru það Eyjamenn og við erum hungraðir. Þeir slógu okkur út í bikarnum og við erum ákveðnir í að slá þá út. Þeir eru verðugir andstæðingar og mjög góðir en við teljum að við séum líka mjög góðir.“

Heimir hrósaði liðsheild Haukamanna. 

„Við stígum allir upp. Þetta er liðsíþrótt og ef 2-3 stíga upp fylgir restin með. Við erum með það breiðan hóp og við notum alla leikmennina okkur í dag. Það er númer 1,2 og 3 hjá okkur. Við erum ekki að gera þetta sem einstaklingar heldur sem lið og þá getum við verið helvíti góðir,“ sagði Heimir Óli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert